Hvaða máli skiptir það?

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki að átta mig á því hvert ákveðnir femínistar eru að fara þessa dagana. Beðið er um nýtt heiti á ráðherra, kynhlutlausari liti á merkingar á nýburum, og svo er mótmælt með að mæta ekki í spjallþátt sem áður var kvartað yfir að hefði ekki nóg af konum. Ekki væri gott ef allir femínistar væru eingöngu að einbeita sér að þessum smámálum. Held að flestir einbeiti sér að alvörumálum t.d. ofbeldi, kynbundinni mismunun, o.fl. Um ráðherramálið er það að segja að mínu mati þá væri fyrsta skrefið að þeir kvenkyns ráðherrar sem finnst svo slæmt að vera ráðherra fari að notast við annað heiti, eins og þingkonur hafa gert. Engin þörf á að gera meira í því máli - ef að kvenkyns ráðherra vildi vera kölluð eitthvað annað þá yrði það örugglega virt, óháð því sem stendur í lögum.

En að þessu máli, þá átta ég mig ekki á því hvaða máli klæðnaður og merkingar nýbura skiptir. Varla eru börnin þá þegar farin að meðtaka staðalímyndir nokkurra daga gömul eða hvað? Gaman væri að vita hverju öll þessi smámál eiga að skila. Eða er kannski málið að eingöngu er verið að láta líta út fyrir að viðkomandi þingmenn konur hafi eitthvað fram að færa á þingi?


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í rétta átt

Nú hefur Musharraf Forseti Pakistan látið af embætti æðsta yfirmanns hers Pakistan og verður því borgaralegur Forseti. Þetta er skref í rétta átt og forvitnilegt verður að sjá hvort að nýi yfirmaður hersins mun fylgja fyrirskipunum síns fyrrverandi yfirmanni í hernum og núverandi borgaralega yfirmanni. Æðstu yfirmenn hersins í Pakistan hafa oftast ekkert verið of mikið að hlusta á borgaralega Forseta landsins. En það er aldrei að vita nema að betur takist til núna þegar Forsetinn er fyrrverandi yfirmaður hersins.

Þessi ákvörðun Musharraf er skref í rétta átt en taka verður skrefið til fulls og afnema neyðarlögin að hluta eða öllu leyti. Leyfa verður fjöldafundi og annað sem fylgir kosningabaráttu. Hann þarf að gera þetta sem fyrst enda annars eru þingkosningarnar í janúar varla lýðræðislegar eða a.m.k. ekki nógu lýðræðislegar.


mbl.is Musharraf sleppir hernum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launamunur kynjanna

Mikið er rætt um óútskýrðan launamun þar sem karlar hafa alltaf hærri laun en konur. Mikilvægt er að taka á þeim málum, en ekki bara einblína á ef að launamunur er milli karla og kvenna, heldur líka t.d. launamunur milli karla sem vinna sömu vinnu og hafa sambærilega menntun og reynslu - og auðvitað milli kvenna í sömu stöðu. Ennfremur þarf að líka að ræða hvað veldur launmun milli kynjanna þegar konur eru með hærri laun, þ.e. ef markmiðið er að eyða óútskýrum launamun hvort sem er milli kynjanna eða milli einstaklinga sem vinna sambærileg störf með svipaða reynslu/menntun.

Einn bloggvinur minn, Nanna Katrín Kristjánsdóttir bendir á áhugaverðar upplýsingar varðandi laun rafkvenna og rafkarla þar sem konurnar eru með mun hærri laun. Hér er grein Nönnu.


Taka verður hart á málum er rétt reynist

Nú halda óeirðirnar áfram í úthverfi Parísar og ástandið er slæmt. Greinilegt að stutt hefur verið í kveikiþráðinn í samfélaginu, a.m.k. ef mið er tekið af því sem lögreglan segir og hefur sagt áður. Eins og ég skrifaði um í gær þá hefur ástandið meðal innflytjenda verið slæmt og það í langan tíma. Nú heldur innanríkisráðherra Frakklands því fram að óeirðirnar séu skipulagðar. Líklega er þá vísað til öfgahópa múslíma. Jarðvegurinn fyrir áhrif þeirra er fyrir hendi og líklega ekki erfitt að notfæra sér örvæntingu og reiði íbúanna og sérstaklega ungs fólks.

Ef rétt er að óeirðirnar séu skipulagðar, þá verða frönsk yfirvöld að taka hart á málinu. Finna verður út hver/hverjir standa á bakvið óeirðirnar og refsa þeim í samræmi við lög. Væri þetta þá ekki skipulögð glæpastarfsemi?


mbl.is Sarkozy hvetur Parísarbúa til stillingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er tilgangurinn?

Stundum er erfitt að átta sig á baráttuaðferðum femínista. Málstaðurinn er oft góður og sérstaklega stóru markmiðin, þó að sum mál séu kannski ekki málstaðnum til framdráttar en það er annað mál.

Varðandi Silfrið þá hef ég ekki fylgst með nema að stundum sér maður þessar fáránlegu hausatalningar sem t.d. Sóley Tómasdóttir var með. Í þeim póstum hennar og fleiri femínista hefur verið mikið kvartað yfir skorti á konum í Silfrinu. Gagnrýni sem vel má vera að sé rétt og á auðvitað rétt á sér enda mikilvægt að hafa sem flest sjónarhorn á málin. En hvaða tilgangi þjónar það að konum sem boðið er í þáttinn hafni að koma í mótmælaskyni? Er ekki verið að koma í veg fyrir með þessu að sjónarhorn viðkomandi kvenna (enda ekki allar konur eins eða með sömu skoðanir) komist á framfæri í umræðunni í þættinum?

Hverju halda femínistar að þær nái fram með þessum aðgerðum? Erfitt er að sjá hver er tilgangurinn nema markmiðið sé að sjónarhorn viðkomandi kvenna sé ekki með í umræðunni, sem vissulega er miður.


mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeirðir á ný og furðulegar yfirlýsingar

Nú höfum við aftur séð óeirðir í úthverfum Parísar og lýsir það að nokkru leyti því slæma ástandi sem innflytjendum hefur verið búið í landinu. Þeir hafa komið til landsins og verið svotil komið fyrir í ákveðnum hverfum. Atvinnuleysi er mikið og vandamál því tengt eru mikil í fátækari hluta íbúa bæði þessara hverfa og annarsstaðar, hvort sem um er að ræða innflytjendur eða Frakka. Hér er um erfið samfélagsleg vandamál, og auk þess þá eru innflytjendur í sérstaklega erfiðri stöðu. Þeir eru í landi þar sem eru miklir fordómar gagnvart þeim og eina skjólið sem þeir finna er í að vera sem næst fólki frá sömu slóðum og þeir eru.

Þrátt fyrir að vera í slæmri stöðu sem þessari þá réttlætir ekkert ofbeldi. Að vísu hafa Frakkar alltaf verið mikið fyrir óeirðir og kannski má segja að þessir innflytjendur falli þar af leiðandi vel að frönsku samfélagi. Yfirlýsingin sem höfð er eftir Omar Sehhouli, bróður annars unglingsins sem lést, um að uppþotið hefði ekki verið ofbeldi heldur hefðu menn verið að lýsa reiði sinni með táknrænum hætti, er kannski táknræn fyrir ástandið. Þegar mönnum finnst sjálfsagt að stofna til óeirða til að lýsa reiði sinni þá er eitthvað að. Of oft réttlæta menn gjörðir sínar með að þeim hafi runnið í skap. En eins og áður segir þá er ekkert sem réttlætir ofbeldi.


mbl.is Óeirðir í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar góðir

Svona á að gera þetta, sjá til að smokka sé alstaðar að finna og því eru auknar líkur á notkun þegar þeir eru svotil fyrir framan nefið á þér. Þegar kemur að HIV sem og öðrum kynsjúkdómum þá er vörnin gegn smiti mjög auðveld. Nota smokkinn! Ekki er það flókið og svínvirkar.  Ég er ánægður að sjá að Kínversk yfirvöld eru ekkert að tvínóna við hlutina, bara farið í beinar aðgerðir sem eru líklegar til að skila árangri. Yfirvöld víða um heim mættu taka sér þá til fyrirmyndar að þessu leyti.

HIV er þó ekki bara úrlausnarmál fyrir yfirvöld. Að koma í veg fyrir HIV smit er ábyrgð okkar allra og líka að sjá til að þeir sem eru smitaðir geti lifað sem eðlilegustu lífi. Of oft er því fólki mismunað, það verður fyrir fordómum eða mannréttindi þeirra eru brotin. Nú þegar langtímameðferð er möguleg og HIV jákvæðir einstaklingar geta lifað mun lengur og jafnvel eins lengi og við hin, þá er mikilvægt að viðkomandi einstaklingar fái að lifa á sama hátt og við ætlumst til að geta. Gleymum ekki að þó að meðferð sé til, þá höfum við enn sem komið er enga lækningu við þessum alvarlega sjúkdómi.  

Fáfræði er líka einstaklega mikil jafnvel meðal þjóða sem við myndum telja vel menntaðar og upplýstar.


mbl.is Smokkar í boði í öllum hótelum í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju til Kína?

Hver var ástæða þess að Bandaríski flotinn vildi senda stórt flugmóðurskip og fylgdarskip þess til Kína? Það er ekki eins og Kína sé skilgreint sem vinaríki í þeirra huga eða hvað. Eða er þeim svo mikið í mun að sigla til hvaða hafnar sem er. Hefði ekki verið betra að finna einhverja aðra höfn hjá vinsamlegri ríkjum? T.d. í Japan eða á Filippseyjum.


mbl.is Bandarískir sjóliðar fengu ekki að koma til hafnar í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agi er það sem þarf

Hlutverk foreldra er að ala upp börnin sín og hluti af því er að setja skýrar reglur. Eitt af því er að segja börnum sínum mörk t.d. varðandi sjónvarpsgláp, notkun á tölvum (fyrir utan heimanám), hvenær farið er að sofa. Ennfremur er mikilvægt að hvetja börnin til að taka þátt í öðru heldur en að vera bara eitt heima t.d. með því að taka þátt í félagsstörfum, íþróttum, o.fl. þar sem börnin eru með öðrum. Hér er um mikilvægan þátt til að þroska félagshæfni þeirra. Að sitja í tölvuleikjum klukkutímunum saman getur ekki verið gott og tímatakmörk sem eru haldin eru góð fyrir barnið. Ég veit að auðvitað er það ekki einfalt mál að setja þau mörk sem þörf er á og almennt séð að ala upp börn.

Hafa verður í huga að börn þurfa og oft vilja skýrar reglur sem eru alltaf þær sömu.


mbl.is Undirliggjandi vandi missi menn tökin á tölvunotkuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum geta menn verið snöggir

Var ekki bara fyrir nokkrum dögum að umsóknarfrestur rann út um stöðuna? Strax er búið að skipa í stöðuna? Þurfti engin viðtöl eða álit nefndar á hæfi o.s.frv.? Umsóknarfrestur rann út 19. nóvember og 22. er búið að skipa í stöðuna. Ég held að þetta hljóti að vera hraðamet í skipun embættismanna á Íslandi og þó víða væri leitað. Kannski hefur bara verið búið að ákveða þetta allt sama fyrirfram.

Hvað sem öllum hraða við ráðninguna líður þá er ég viss um að Valtýr er hæfur maður og ég óska honum alls hins besta í nýju og krefjandi starfi.


mbl.is Valtýr Sigurðsson skipaður ríkissaksóknari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband