Er kannski von?

Nú spyr maður sig (eins og oft áður) hvort að Guðlaugur muni hafa kjark til að hætta við byggingu sjúkrahúss á Landspítalalóðinni? Þegar kemur að byggingum sjúkrahúss sem og annarri atvinnustarfsemi þá verður að huga að hvaða þörfum starfsemin á að þjóna. Að því loknu verður að ákveða mikilvægi staðsetningarinnar og með hvaða hætti starfsemin skuli vera. Sjúkrahús sem þetta hefur í raun 2 meginmarkmið (mjög einfaldað), í fyrsta lagi að hugsa um heilsu sjúklinga sem koma til innlagnar við mismunandi sjúkdómum og/eða ástandi, og í öðru lagi að vera staður fyrir bráðameðferð t.d. eftir slys.

Til þess að sjúkrahús geti sinnt seinni þættinum þá þarf það að vera staðsett nærri umferðaræðum og eins miðsvæðis og mögulegt er. Að byggja sjúkrahús í gamla miðbænum og fjarri miðju upptökusvæðisins (höfuðborgarsvæðinu) nær ekki þessu markmiði og í raun gæti það hindrað hagkvæma og örugga framkvæmd á bráðaþættinum.

Aftur á móti skiptir staðsetning ekki eins miklu máli varðandi fyrri þáttinn þ.e. skammtíma og langtíma meðferð við sjúkdómum og/eða ástandi af ýmsum toga. Sú starfsemi getur farið fram hvar sem er, enda ekki háð staðsetningu. Frekar er um að ræða að mikilvægast sé að í viðkomandi húsnæði séu aðstæður til að veita umrædda þjónustu.

Til að rekstur sjúkrahúss sé hagkvæmur og í raun rökréttur þurfa báðir þættirnir að vera í sömu byggingu eða a.m.k. nærri hvor öðrum. Enda þarf oft að senda sjúklinga af bráðadeildum yfir á deildir sem sjá um lengri tíma meðferð viðkomandi sjúklings.

Nú er ég enn að vona að Guðlaugur taki ákvörðun um að hætta við byggingu sjúkrahússins á þeim stað sem nú stendur til að byggja og skoði málið meira útfrá hagsmunum þeirra sem sækja þurfa þjónustuna. Enda voru þeir hagsmunir líklega látnir víkja fyrir öðrum og minna mikilvægum hagsmunum.


mbl.is Farið yfir áætlanir um byggingu nýs sjúkrahúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Írönum

Það er gott til þess að vita að Íranar séu að leggja eitthvað að mörkum til að draga úr ofbeldi í Írak, enda kominn tími til. Þeir hafa í nokkuð langan tíma stutt við uppreisnarmenn í Írak með því að gera lítið sem ekkert til að sporna við smygli á vopnum, sprengiefnum, o.fl. Nú þegar þeir hefja aðgerðir til að takmarka smyglið þá kemur í ljós hve mikið þeir geta auðveldlega gert til að takmarka möguleika uppreisnarmanna og hryðjuverkamanna til að halda áfram árásum í Írak. Svo er auðvitað spurning hvort að þeir séu ennþá að styðja við einhverja hópa uppreisnarmanna eða jafnvel erlenda hryðjuverkamenn í Írak með beinum eða óbeinum hætti. En það er gott til þess að vita að Íranar séu núna að leggja eitthvað af mörkum og vonandi heldur það áfram enda er aðeins möguleiki á friði í Írak ef nágrannaþjóðirnar gera það sem þær geta til að takmarka ofbeldið í landinu.


mbl.is Bandarískur hershöfðingi segir Írana leggja sitt af mörkum í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu vitlausir geta menn verið?

Þetta mál er með því skrítnara sem ég hef heyrt um í langan tíma. Í tölvukerfi eru viðkvæmar persónuupplýsingar og koma þarf upplýsingunum til London. Í stað þess að senda upplýsingarnar rafrænt er ákveðið að afrita þær á tölvudiska. Allt í lagi með það, en að senda þá svo í venjulegum pósti er með því ábyrgðarlausasta sem ég hef heyrt. Af hverju var ekki einfaldlega sendur sendill með diskana? Best hefði auðvitað verið að senda með rafrænum hætti viðkomandi gögn eftir öruggum leiðum og dulkóðað. Varla ætti það að vera vandamál fyrir Bresk yfirvöld eða hvað?

Kannski er stóra spurningin þessi, af hverju er ekki meiri virðing borin fyrir viðkvæmum persónuupplýsingum en það að ekkert mál sé að senda afrit í venjulegum pósti? Það er að vísu ekki bara vandmál í Bretlandi, heldur víðar og yfirleitt í öllum löndum heims. 

Skortur á virðingu fyrir göngum um einstaklinga er eins slæm og of strangar kröfur um meðferð þeirra sem draga úr nytsemi viðkomandi upplýsinga. Viðmiðið hlýtur að vera að upplýsingar um hagi einstaklinga séu öruggar en með þeim hætti að auðvelt sé fyrir þá sem eiga að hafa aðgang að vinna með þær.


mbl.is Bretum bætt hugsanlegt tjón vegna tölvudiskahneykslis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki komið nóg af sjálfstæðum ríkjum á balkanskaga?

Ekki fyrir svo mörgum árum voru 4 ríki á Balkanskaganum eða Albanía, Búlgaría, Grikkland og Júgóslavía. Nú eru þau orðin 9 og ef Kosovo-Albanar ná sínu í gegn þá verða þau 10. Svo virðist sem grunnt sé á því góða milli nokkurra þeirra og að ákveðin ríki séu kannski ekki of burðug. Hvenær ætli menn reyni að stöðva þessa þróun? Það getur varla verið gott að ríkjum á litlu landsvæði hafi fjölgað svo mikið á stuttum tíma. Vissulega var eðlilegt að Júgóslavía brotnaði í sundur á svipaðan hátt og Sovétríkin, en er þetta ekki of mikið.

Hvað gera menn ef að Kosovo-Albanar lýsa yfir sjálfstæði og Serbar segja hingað og ekki lengra, og senda herinn inn. Slæmt er fyrir Serba að hafa hluta af landi sínu undir erlendri stjórn, hverjar svo sem ástæður fyrir því eru. Ef að í stað þess að Kosovo verði með nokkuð sjálfstæði en innan Serbíu, að þá verði um sjálfstætt ríki að ræða þá hlýtur krafa almennings í Serbíu að gripið sé til aðgerða. Hver verða þá viðbrögð t.d. í Bosníu, en þar mætti sjá fyrir sér mögulega 3 ríki í stað 1.  Kannski ekki líklegt en óstöðugleiki á Balkanskaga yrði slæmur fyrir alla.

Sem betur fer er þó frekar líklegt að ef Kosovo-Albanar lýsi yfir sjálfstæði að þeir yrðu einangraðir af alþjóðasamfélaginu. Enda yrði meginmarkmið ESB og fleiri aðila að koma í veg fyrir að átök brjótist út á ný á svæðinu. Enda ekki gott að þurfa að koma inn aftur til að stilla til friðar. Varla er líklegt að Albanía myndi standa við bakið á Kosovo Albönum, enda er þeim líklega meira í mun að komast í aðildarviðræður við ESB, en að styðja við ríki sem yrði undir eins einangrað af öðrum Evrópuríkjum.


mbl.is Kosovo-Albanar varaðir við að ana út í sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búlgarskt brúðkaup

Nú er maður ekki lengur einhleypur maður og er nýgiftur (eða á maður að segja nýkvæntur?). Brúðkaupið fór fram þann 11. nóvember í Sofíu í Búlgaríu og var auðvitað mjög búlgarskt. Allt sem var hefðbundið var byggt á búlgörskum hefðum enda gat ég ekki fundið neinar íslenskar á meðan undirbúningnum stóð.

Segja má að allt hafi verið mjög ólíkt því sem maður á að venjast. Í fyrsta lagi voru tvær athafnir - borgaraleg og trúarleg - sem er ein athöfn á Íslandi. Í öðru lagi þá eru ýmsar hefðir sem ég hafði aldrei leitt hugann að. Ennfremur er maður ekki með svaramenn heldur eru vitni sem verða að vera karl og kona. Vitnið mitt var Svala kona bróður míns og mjög góður vinur minn.

Áður en allt hófst þá þurfti ég að mæta ásamt vitnunum og fjölskyldu minni til að sækja brúðina. Það eru mikil læti enda hefð fyrir því að karlættingjar reyna að hindra að maður geti sótt brúðina. Að manni er réttur annar skór brúðarinnar og maður á þá að borga fyrir hana. Þeir voru ekki sáttir við fyrstu greiðslu en eftir aðra greiðslu var mér loksins hleypt inn. Vera var auðvitað gullfalleg í brúðarkjólnum og ég átti varla orð. Eftir smátíma í íbúðinni var farið í nálægan garð til að taka myndir af okkur og gestum okkar.

Að myndatöku lokinni var farið til yfirvalda þar sem hin lögformlega gifting fór fram. Athöfnin fór auðvitað fram á búlgörsku en Vera hafði áður þýtt allt fyrir mig, svo ég vissi nokkurn vegin hvar í athöfninni við vorum á hverjum tíma. Við höfðum okkar hluta (svar við stóru spurningunni og brúðkaupsheitið) bæði á búlgörsku og íslensku. Ég hafði æft mig mikið og komst nokkuð klakklaust frá þessu þó að sú sem stjórnaði athöfninni breytti orðalaginu aðeins. Vera var mun betri þó að hún þyrfti að fara utanbókar (án þess að endurtaka eftir öðrum) íslensku útgáfuna.

Nú vorum við lögformlega gift. Við fórum eftir borgaralegu athöfnina yfir í Saint Sofia, sem er elsta kirkja í Sofíu, en þar fór fram trúarlega athöfn. Það var mikil upplifun enda er athöfnin í Rétttrúnaðarkirkjum nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast. Við byrjuðum á að ganga inn kirkjugólfið með tvö kerti sem voru tengd með gullnum borða. Miðja leið voru hringarnir settir á okkur. Fyrst hálfa leið og svo kom kvenvitnið til að krossa hringana þrisvar. Þá voru hringarnir teknir aftur og gengið var alla leið inn kirkjugólfið. Þar voru hringarnir blessaðir þrisvar og loksins settir á okkur. Þá tók við athöfn við að setja á okkur kórónur og allt gert þrisvar áður en við kysstum kórónuna og hún var sett á höfðið á okkur. Svo var drukkið vín og auðvitað þrisvar. Að því loknu kom karlvitnið og krossaði kórónurnar þrisvar fyrir framan okkur. Að lokum fórum við þrisvar í kringum borð með kórónurnar á höfðinu á eftir prestinum. Sem betur fer voru kórónurnar þá teknar af okkur, enda hafði ég helst á tilfinningunni að kórónan myndi falla af höfðinu á mér. Við vorum ekki spurð hvort við vildum eiga hvort annað enda gert ráð fyrir því eftir að við höfðum gengið í hjónaband hjá yfirvöldunum.

Loksins kom að veislunni og við komum skv. hefð síðust inn ásamt vitnunum. Tvær hefðir tóku við um leið og við gengum inn. Fyrst var hefðbundin athöfn þar sem móðir brúðguma býður brúðina velkoman í fjölskylduna. Hún (móðir brúðguma) brýtur smábita af brauði og dýfir í salt og gefur nýju hjónunum og svo líka bita sem dýft er í hunang. Næsta hefð var að litlum potti með rauðu og hvítu blómi var sparkað. Samkvæmt hefð þá er það blóm sem kemur útúr pottinum tákn um hvort að frumburðurinn verði stelpa eða strákur. Hvíta blómið þýðir stelpa en það rauða strákur - ef ég man rétt - en ef bæði koma út þá verða það tvíburar. Og viti menn að útúr pottinum komu bæði blómin. Vonandi rætist þetta nú ekki enda held ég að nóg sé að fást við eitt ungabarn í einu.

Veislan hófst þá af fullum krafti og fljótlega byrjaði fólk að ná sér í mat í hlaðborðið og auðvitað drekka. Auðvitað var mikið dansað. Við Vera höfðum áður farið til danskennara til að við gætum komið vel fyrir þegar við dönsuðum okkar fyrsta dans og það gekk allt upp. Sumir drukku meira í veislunni en líklega í mörg ár og voru einstaklega kátir en án þess að vera til vandræða. T.d. held ég að bróðir minn hafi ekki drukkið svo mikið í fjöldamörg ár. Ekki að skilja að hann hafi verið ofurölvi, en gaman að sjá hann skemmta sér svona vel.

Nú er öllu þessu lokið en að lokum og nokkuð skrítið að nú sé eiginkona mín með mitt föðurnafn til viðbótar við sitt ættarnafn og heitir því fullu nafni núna Vera Kopoeva-Einarsson. Að lokum eru hér tvær myndir af okkur, sem voru teknar af kollega Veru. Önnur með vitnunum og hin með foreldrunum.

 


Frjálsar kosningar?

Það er nokkuð merkilegt að boða til kosninga fyrst að ástandið á að vera svo slæmt í Pakistan að það var þörf á að setja neyðarlög. Ég get skilið röksemdir Forseta landsins um að hæstiréttur hafi í raun tekið ítrekað fram fyrir hendurnar á löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Hvað sem er rétt í því kemur í raun ekki málinu við. Aðalmálið nú er að vinna úr þeirri stöðu sem er upp komin, sérstaklega í ljósi þess að það eru grundvallarhagsmunir Bandaríkjanna og fleiri ríkja að stöðug stjórn sé í Pakistan.

Allt og gott með að hafa stöðuga stjórn, en þegar þeir átta sig ekki á grundvallaratriðum þá eru þeir í vondum málum. Ef að neyðarlög eru í landinu sem m.a. banna fjöldasamkomur (eftir því sem ég best veit), hvernig er þá hægt að hafa kosningar. Hvernig eiga, sérstaklega minna þekktir, frambjóðendur að afla sér fylgis? Hvernig eiga þeir að koma sínum málum á framfæri? Það einfaldlega gengur ekki upp að halda kosningar í þessari stöðu. Nær væri að segja að t.d. í lok desember verði neyðarlögunum aflétt og 4-6 vikum síðar verði kosningar. Herinn getur haldið áfram sínum aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum eins og ekkert hafi í skorist.

Frjálsar kosningar þurfa frjálst umhverfi.


mbl.is Staðfest að kosningar fara fram í Pakistan 8. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skaða bandarísk fyrirtæki

Stundum þegar kemur að bandarískum stjórnvöldum þá þarf maður að aðlaga orð Steinríks í Ástríksbókunum og segja Kaninn er klikk.

Er það virkilega hagsmunum Bandaríkjanna fyrir bestu að ákveðin fyrirtæki eigi ekki í viðskiptum við ákveðin fyrirtæki, vegna þess að búnaður framleiddur af þeim fyrrnefndu er notaður af þeim síðarnefndu til að gera eitthvað sem yfirvöldum í Washington DC líkar ekki? Skaðar það ekki viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækis? Hvað sem okkur kann að finnast um viðskiptabann USA gagnvart Kúbu þá er þessi háttsemi bandarískra ráðmanna þeim til skammar og er ekki vænleg til að afla þeim mikils hróðurs.

Væri ekki betra að þeir huguðu að laga til á þeim hluta Kúbu sem þeir ráða og að leysa úr málefnum Íraks, og ýmislegs annars sem hefði betri áhrif en að þvargviðrast útaf kommunum á Kúbu sem hafa ekki haft það svo slæmt þrátt fyrir áratugalangt viðskiptabann af hálfu USA? Casto mun innan ekki langs tíma gefa upp öndina og þá eru breytingar á Kúbu líklegar, en ekki fyrr en þá.


mbl.is Finna að Kúbu-flugi íslenskra flugfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju má ekki hafa gæludýr?

Alltaf vekur það furðu mína þegar maður heyrir þessi dæmi um reglur sem banna gæludýr hvort sem er á hjúkrunar- og dvalarheimilum eða í blokkum. Hver er skaði þessara dýra?

Fyrir okkur gæludýraeigendur þá veita dýrin okkur mikla ánægju og skemmtilegan félagsskap. Oft er furðulegt að sjá hvað þau skynja betur en nokkur manneskja hvernig okkur líður. Kötturinn minn er alveg með það á hreinu hvenær mér líður illa og hvenær mér líður vel. Þegar ég hef verið heima veikur þá kúrir hann bara hjá mér. Ekki er hann með læti eða miklar óskir um að leika við sig. Aftur á móti þegar hann veit að allt er í góðu lagi þá verður hann fjörugri og jafnvel heldur sig meira útaf fyrir sig. Ég á fiska líka og að dunda sér við að hugsa um þá veitir mér líka mikla ánægju, oft eru fiskabúrin mín betri en nokkuð sjónvarpsefni og að fylgjast með hvað smávægileg vinna fyrir mig hefur oft góð áhrif á lífríkið í búrunum.

Fyrir fólk sem hefur glatað starfsgetu og er einmanna þá getur gæludýr gert gæfumuninn milli ánægju af lífinu og mögulegu þunglyndi. Að hafa kött eða lítinn hund er frábært fyrir eldri borgara. Sérstaklega er gott ef að viðkomandi er með hund þar sem nauðsynlegt er að fara út með hundinn bæði til að gera þarfir sínar og til að fara á göngu. Ég hef sjálfur orðið vitni að því hve jákvæð áhrif t.d. heimsókn frá hundi hefur á gamla fólkið á þessum stofnunum. Það var sem lifnaði yfir mannskapnum og gott ef þeir sem varla brostu voru farnir að brosa. Gæludýr gera því eldri borgurum þessa lands ekkert nema gott og er ekki okkar skylda að leyfa þeim sem lagt hafa lífsstarf sitt til samfélagsins, að njóta síðustu ára sinna.

Hvað er það sem veldur að á Íslandi, ólíkt öllum nágrannaþjóðum okkar er svo mikið bann við dýrahaldi í þéttbýli? Ekki er það langt síðan við vorum flest flutt á mölina. Höfum við gleymt að dýr hafa alltaf verið mikilvægur þáttur í lífi íslendinga? Nú munu líklega einhverjir segja að sumir séu með ofnæmi. Vissulega er það rétt en á ofnæmi fárra að stjórna hvaða reglur gilda fyrir fjöldann. Auk þess hefur ofnæmi oft verið notuð sem ástæða til að losna við hund og önnur dýr úr blokkum. Ekki hefur viðkomandi þurft að leggja fram nokkra sönnun um ofnæmi og ef að rétt sé hjá þeim sem krefjast að t.d. hundur sé fjarlægður vegna ofnæmis þá erum við með einstaklega mikinn dýraofnæmisvanda á Íslandi, og eitthvað verður að gera til að lækna þetta umfangsmikla heilbrigðisvandamál. Að stórum hluta er ofnæmiskrafan tæki til að losna við dýr úr fjölbýlishúsum og hefur lítið sem ekkert með viðkomandi dýr að gera.

Eðlileg krafa hlýtur að vera að reglur um dýrahald séu sambærilegar á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa þar verið mikil vandamál eftir því sem ég best veit. Ég bý í Lúxemborg og man ekki eftir að hafa heyrt um mikil vandamál. Að vísu er ýmislegt gert til að auðvelda dýraeigendum að sinna skyldum sínum, t.d. að hreinsa upp eftir dýrin sín með því að hafa mikið af ruslatunnum og jafnvel ókeypis poka á mörgum stöðum. Er ekki kominn tími til að Íslendingar hætti að banna allt og geri frekar það litla sem þarf til að hjálpa dýraeigendum að sinna sínum skyldum.


mbl.is Afþakka vist vegna gæludýrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Í Pakistan voru sett neyðarlög sem ekki er hægt að sjá að hafi þjónað öðrum tilgangi en að Forseti landsins og yfirmaður heraflans gæti haldið völdum sínum. Horfur voru á að hæstiréttur landsins myndi dæma framboð hans til Forseta ólöglegt.

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt setningu neyðarlagana og fáir eru þar undanskyldir. Að leiðtogar helstu ríkja heimsins og meginstofnana alþjóðasamfélagsins gagnrýni þegar vegið er að lýðræði í einstökum löndum er eðlilegur hluti af starfi þeirra. Þ.e. ef þeir telja að styðja beri lýðræðisþróun hvar sem er í heiminum. Gott er til þess að vita að aðalritari S.Þ. taki hlutverk sitt alvarlega og gagnrýni þróun sem grefur undan lýðræði í einstökum aðildarríkjum. Pakistan er nýjasta dæmið og þó að setning neyðarlagana ógni a.m.k. ekki á næstunni stöðugleika í Pakistan eða geri stöðu í nálægum löndum verri, þá er mikilvægt að gefa út þau skilaboð að andstaða sé gegn þróun í átt að einræði sem grefur yfirleitt undan stöðugleika.

Pakistanar verða að átta sig á að innanríkismál einstakra ríkja geta haft mikil áhrif á þeirra umhverfi og þar með ógnað stöðugleikanum. Hvað ef t.d. öfgahópar múslima myndu leiða andstöðu við núverandi stjórn og kæmust þannig til valda. Það væri mikil ógn við frið á svæðinu og jafnvel langt útfyrir nágrannaríki Pakistan. 


mbl.is Pakistanar reiðir Ban Ki-moon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn standa við sitt

Það er ánægjulegt að Norðmenn taka hlutverk sitt innan NATO alvarlega og eru tilbúnir að senda meira herlið til að standa við það sem þeir hafa lofað með aðild sinni að NATO og að verkefninu. Hér er um mjög ólíka nálgun en er að finna hjá hæstvirtum utanríkisráðherra Íslands. Í stað þess að standa við skuldbindingar þá er borgaralegum starfsmanni í verkefni á vegum NATO kippt út úr Bagdad án þess að nokkur rök búi þar að baki. Eitt er þegar ríki dregur herlið sitt til baka útúr stríði þar sem það telur ekki þörf eða réttlætingu fyrir afskiptum þeirra að viðkomandi stríði. Annað er að draga borgaralega starfsmenn útúr verkefni án þess að nokkuð búi þar að baki nema vilji stjórnmálamanns til að slá pólitískar keilur.

Ingibjörg Sólrún ætti að fara í læri hjá frændum okkar í Noregi til að átta sig á því að þegar land ákveður að taka þátt í verkefni þá hoppa menn ekki bara út úr því án nokkurrar ástæðu. Að vísu er ekki við miklu að búast frá manneskju sem hefur ekki fundist mikið af því að svíkja gefin loforð gagnvart bandamönnum í stjórnmálum. 


mbl.is Norðmenn senda liðsauka til Afganistans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 713

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband