Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hversu vitlausir geta menn verið?

Þetta mál er með því skrítnara sem ég hef heyrt um í langan tíma. Í tölvukerfi eru viðkvæmar persónuupplýsingar og koma þarf upplýsingunum til London. Í stað þess að senda upplýsingarnar rafrænt er ákveðið að afrita þær á tölvudiska. Allt í lagi með það, en að senda þá svo í venjulegum pósti er með því ábyrgðarlausasta sem ég hef heyrt. Af hverju var ekki einfaldlega sendur sendill með diskana? Best hefði auðvitað verið að senda með rafrænum hætti viðkomandi gögn eftir öruggum leiðum og dulkóðað. Varla ætti það að vera vandamál fyrir Bresk yfirvöld eða hvað?

Kannski er stóra spurningin þessi, af hverju er ekki meiri virðing borin fyrir viðkvæmum persónuupplýsingum en það að ekkert mál sé að senda afrit í venjulegum pósti? Það er að vísu ekki bara vandmál í Bretlandi, heldur víðar og yfirleitt í öllum löndum heims. 

Skortur á virðingu fyrir göngum um einstaklinga er eins slæm og of strangar kröfur um meðferð þeirra sem draga úr nytsemi viðkomandi upplýsinga. Viðmiðið hlýtur að vera að upplýsingar um hagi einstaklinga séu öruggar en með þeim hætti að auðvelt sé fyrir þá sem eiga að hafa aðgang að vinna með þær.


mbl.is Bretum bætt hugsanlegt tjón vegna tölvudiskahneykslis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki komið nóg af sjálfstæðum ríkjum á balkanskaga?

Ekki fyrir svo mörgum árum voru 4 ríki á Balkanskaganum eða Albanía, Búlgaría, Grikkland og Júgóslavía. Nú eru þau orðin 9 og ef Kosovo-Albanar ná sínu í gegn þá verða þau 10. Svo virðist sem grunnt sé á því góða milli nokkurra þeirra og að ákveðin ríki séu kannski ekki of burðug. Hvenær ætli menn reyni að stöðva þessa þróun? Það getur varla verið gott að ríkjum á litlu landsvæði hafi fjölgað svo mikið á stuttum tíma. Vissulega var eðlilegt að Júgóslavía brotnaði í sundur á svipaðan hátt og Sovétríkin, en er þetta ekki of mikið.

Hvað gera menn ef að Kosovo-Albanar lýsa yfir sjálfstæði og Serbar segja hingað og ekki lengra, og senda herinn inn. Slæmt er fyrir Serba að hafa hluta af landi sínu undir erlendri stjórn, hverjar svo sem ástæður fyrir því eru. Ef að í stað þess að Kosovo verði með nokkuð sjálfstæði en innan Serbíu, að þá verði um sjálfstætt ríki að ræða þá hlýtur krafa almennings í Serbíu að gripið sé til aðgerða. Hver verða þá viðbrögð t.d. í Bosníu, en þar mætti sjá fyrir sér mögulega 3 ríki í stað 1.  Kannski ekki líklegt en óstöðugleiki á Balkanskaga yrði slæmur fyrir alla.

Sem betur fer er þó frekar líklegt að ef Kosovo-Albanar lýsi yfir sjálfstæði að þeir yrðu einangraðir af alþjóðasamfélaginu. Enda yrði meginmarkmið ESB og fleiri aðila að koma í veg fyrir að átök brjótist út á ný á svæðinu. Enda ekki gott að þurfa að koma inn aftur til að stilla til friðar. Varla er líklegt að Albanía myndi standa við bakið á Kosovo Albönum, enda er þeim líklega meira í mun að komast í aðildarviðræður við ESB, en að styðja við ríki sem yrði undir eins einangrað af öðrum Evrópuríkjum.


mbl.is Kosovo-Albanar varaðir við að ana út í sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálsar kosningar?

Það er nokkuð merkilegt að boða til kosninga fyrst að ástandið á að vera svo slæmt í Pakistan að það var þörf á að setja neyðarlög. Ég get skilið röksemdir Forseta landsins um að hæstiréttur hafi í raun tekið ítrekað fram fyrir hendurnar á löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Hvað sem er rétt í því kemur í raun ekki málinu við. Aðalmálið nú er að vinna úr þeirri stöðu sem er upp komin, sérstaklega í ljósi þess að það eru grundvallarhagsmunir Bandaríkjanna og fleiri ríkja að stöðug stjórn sé í Pakistan.

Allt og gott með að hafa stöðuga stjórn, en þegar þeir átta sig ekki á grundvallaratriðum þá eru þeir í vondum málum. Ef að neyðarlög eru í landinu sem m.a. banna fjöldasamkomur (eftir því sem ég best veit), hvernig er þá hægt að hafa kosningar. Hvernig eiga, sérstaklega minna þekktir, frambjóðendur að afla sér fylgis? Hvernig eiga þeir að koma sínum málum á framfæri? Það einfaldlega gengur ekki upp að halda kosningar í þessari stöðu. Nær væri að segja að t.d. í lok desember verði neyðarlögunum aflétt og 4-6 vikum síðar verði kosningar. Herinn getur haldið áfram sínum aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum eins og ekkert hafi í skorist.

Frjálsar kosningar þurfa frjálst umhverfi.


mbl.is Staðfest að kosningar fara fram í Pakistan 8. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skaða bandarísk fyrirtæki

Stundum þegar kemur að bandarískum stjórnvöldum þá þarf maður að aðlaga orð Steinríks í Ástríksbókunum og segja Kaninn er klikk.

Er það virkilega hagsmunum Bandaríkjanna fyrir bestu að ákveðin fyrirtæki eigi ekki í viðskiptum við ákveðin fyrirtæki, vegna þess að búnaður framleiddur af þeim fyrrnefndu er notaður af þeim síðarnefndu til að gera eitthvað sem yfirvöldum í Washington DC líkar ekki? Skaðar það ekki viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækis? Hvað sem okkur kann að finnast um viðskiptabann USA gagnvart Kúbu þá er þessi háttsemi bandarískra ráðmanna þeim til skammar og er ekki vænleg til að afla þeim mikils hróðurs.

Væri ekki betra að þeir huguðu að laga til á þeim hluta Kúbu sem þeir ráða og að leysa úr málefnum Íraks, og ýmislegs annars sem hefði betri áhrif en að þvargviðrast útaf kommunum á Kúbu sem hafa ekki haft það svo slæmt þrátt fyrir áratugalangt viðskiptabann af hálfu USA? Casto mun innan ekki langs tíma gefa upp öndina og þá eru breytingar á Kúbu líklegar, en ekki fyrr en þá.


mbl.is Finna að Kúbu-flugi íslenskra flugfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju má ekki hafa gæludýr?

Alltaf vekur það furðu mína þegar maður heyrir þessi dæmi um reglur sem banna gæludýr hvort sem er á hjúkrunar- og dvalarheimilum eða í blokkum. Hver er skaði þessara dýra?

Fyrir okkur gæludýraeigendur þá veita dýrin okkur mikla ánægju og skemmtilegan félagsskap. Oft er furðulegt að sjá hvað þau skynja betur en nokkur manneskja hvernig okkur líður. Kötturinn minn er alveg með það á hreinu hvenær mér líður illa og hvenær mér líður vel. Þegar ég hef verið heima veikur þá kúrir hann bara hjá mér. Ekki er hann með læti eða miklar óskir um að leika við sig. Aftur á móti þegar hann veit að allt er í góðu lagi þá verður hann fjörugri og jafnvel heldur sig meira útaf fyrir sig. Ég á fiska líka og að dunda sér við að hugsa um þá veitir mér líka mikla ánægju, oft eru fiskabúrin mín betri en nokkuð sjónvarpsefni og að fylgjast með hvað smávægileg vinna fyrir mig hefur oft góð áhrif á lífríkið í búrunum.

Fyrir fólk sem hefur glatað starfsgetu og er einmanna þá getur gæludýr gert gæfumuninn milli ánægju af lífinu og mögulegu þunglyndi. Að hafa kött eða lítinn hund er frábært fyrir eldri borgara. Sérstaklega er gott ef að viðkomandi er með hund þar sem nauðsynlegt er að fara út með hundinn bæði til að gera þarfir sínar og til að fara á göngu. Ég hef sjálfur orðið vitni að því hve jákvæð áhrif t.d. heimsókn frá hundi hefur á gamla fólkið á þessum stofnunum. Það var sem lifnaði yfir mannskapnum og gott ef þeir sem varla brostu voru farnir að brosa. Gæludýr gera því eldri borgurum þessa lands ekkert nema gott og er ekki okkar skylda að leyfa þeim sem lagt hafa lífsstarf sitt til samfélagsins, að njóta síðustu ára sinna.

Hvað er það sem veldur að á Íslandi, ólíkt öllum nágrannaþjóðum okkar er svo mikið bann við dýrahaldi í þéttbýli? Ekki er það langt síðan við vorum flest flutt á mölina. Höfum við gleymt að dýr hafa alltaf verið mikilvægur þáttur í lífi íslendinga? Nú munu líklega einhverjir segja að sumir séu með ofnæmi. Vissulega er það rétt en á ofnæmi fárra að stjórna hvaða reglur gilda fyrir fjöldann. Auk þess hefur ofnæmi oft verið notuð sem ástæða til að losna við hund og önnur dýr úr blokkum. Ekki hefur viðkomandi þurft að leggja fram nokkra sönnun um ofnæmi og ef að rétt sé hjá þeim sem krefjast að t.d. hundur sé fjarlægður vegna ofnæmis þá erum við með einstaklega mikinn dýraofnæmisvanda á Íslandi, og eitthvað verður að gera til að lækna þetta umfangsmikla heilbrigðisvandamál. Að stórum hluta er ofnæmiskrafan tæki til að losna við dýr úr fjölbýlishúsum og hefur lítið sem ekkert með viðkomandi dýr að gera.

Eðlileg krafa hlýtur að vera að reglur um dýrahald séu sambærilegar á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa þar verið mikil vandamál eftir því sem ég best veit. Ég bý í Lúxemborg og man ekki eftir að hafa heyrt um mikil vandamál. Að vísu er ýmislegt gert til að auðvelda dýraeigendum að sinna skyldum sínum, t.d. að hreinsa upp eftir dýrin sín með því að hafa mikið af ruslatunnum og jafnvel ókeypis poka á mörgum stöðum. Er ekki kominn tími til að Íslendingar hætti að banna allt og geri frekar það litla sem þarf til að hjálpa dýraeigendum að sinna sínum skyldum.


mbl.is Afþakka vist vegna gæludýrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Í Pakistan voru sett neyðarlög sem ekki er hægt að sjá að hafi þjónað öðrum tilgangi en að Forseti landsins og yfirmaður heraflans gæti haldið völdum sínum. Horfur voru á að hæstiréttur landsins myndi dæma framboð hans til Forseta ólöglegt.

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt setningu neyðarlagana og fáir eru þar undanskyldir. Að leiðtogar helstu ríkja heimsins og meginstofnana alþjóðasamfélagsins gagnrýni þegar vegið er að lýðræði í einstökum löndum er eðlilegur hluti af starfi þeirra. Þ.e. ef þeir telja að styðja beri lýðræðisþróun hvar sem er í heiminum. Gott er til þess að vita að aðalritari S.Þ. taki hlutverk sitt alvarlega og gagnrýni þróun sem grefur undan lýðræði í einstökum aðildarríkjum. Pakistan er nýjasta dæmið og þó að setning neyðarlagana ógni a.m.k. ekki á næstunni stöðugleika í Pakistan eða geri stöðu í nálægum löndum verri, þá er mikilvægt að gefa út þau skilaboð að andstaða sé gegn þróun í átt að einræði sem grefur yfirleitt undan stöðugleika.

Pakistanar verða að átta sig á að innanríkismál einstakra ríkja geta haft mikil áhrif á þeirra umhverfi og þar með ógnað stöðugleikanum. Hvað ef t.d. öfgahópar múslima myndu leiða andstöðu við núverandi stjórn og kæmust þannig til valda. Það væri mikil ógn við frið á svæðinu og jafnvel langt útfyrir nágrannaríki Pakistan. 


mbl.is Pakistanar reiðir Ban Ki-moon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn standa við sitt

Það er ánægjulegt að Norðmenn taka hlutverk sitt innan NATO alvarlega og eru tilbúnir að senda meira herlið til að standa við það sem þeir hafa lofað með aðild sinni að NATO og að verkefninu. Hér er um mjög ólíka nálgun en er að finna hjá hæstvirtum utanríkisráðherra Íslands. Í stað þess að standa við skuldbindingar þá er borgaralegum starfsmanni í verkefni á vegum NATO kippt út úr Bagdad án þess að nokkur rök búi þar að baki. Eitt er þegar ríki dregur herlið sitt til baka útúr stríði þar sem það telur ekki þörf eða réttlætingu fyrir afskiptum þeirra að viðkomandi stríði. Annað er að draga borgaralega starfsmenn útúr verkefni án þess að nokkuð búi þar að baki nema vilji stjórnmálamanns til að slá pólitískar keilur.

Ingibjörg Sólrún ætti að fara í læri hjá frændum okkar í Noregi til að átta sig á því að þegar land ákveður að taka þátt í verkefni þá hoppa menn ekki bara út úr því án nokkurrar ástæðu. Að vísu er ekki við miklu að búast frá manneskju sem hefur ekki fundist mikið af því að svíkja gefin loforð gagnvart bandamönnum í stjórnmálum. 


mbl.is Norðmenn senda liðsauka til Afganistans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstaða við breytingar vegna heimsku ...

... eða á kannski frekar að tala um það sem vanmat eða skort á skilningi á vilja kjósenda? Vandi forystumanna ESB er að þeir átta sig of oft ekki á af hverju fólk í aðildarríkjunum styðja og eru ánægð með aðild síns lands að ESB. Ennfremur virðast þeir oft ekki fatta að stór munur er milli ríkja þegar kemur að forgangsröðun í huga kjósenda á hvað ESB á að gera. Almennt séð má segja að almenningur í Evrópu vill að ESB sé ekki bara um markað heldur að sameiginlega sé ýtt undir evrópska nálgun í ákveðnum málaflokkum. Hér má horfa sérstaklega til félagslegra þátta og þar með talið heilbrigðismál. 

Of miklar breytingar eru slæmar og að flækja málið of mikið er slæmt. En af hverju á ekki að búa til einn sáttmála fyrir ESB? Tvennt kemur til að mínu mati:

1. Í raun er þegar um einn sáttmála að ræða sem hefur breyst með nýjum viðbótum eða breytingum. Svipað og þegar lögum er breytt þá er ákveðnum þáttum breytt en ef hægt er að komast hjá því þá er ekki lögunum breytt í heild sinni. Allir sáttmálar ESB mynda í raun einn sáttmála. Algjör óþarfi er því að bera undir kjósendur þann hluta sem hefur þegar verið samþykktur. Þessi árátta hjá leiðtogum ESB að búa til nýjan sáttmála til að leysa Rómarsáttmálann af hólmi er ekki vænleg til árangurs og ekkert er af því að hafa ekki heildarsáttmála samþykktan sem slíkan enda hafa viðkomandi atriði þegar verið samþykkt. Besta leiðin til að breyta ESB er að eingöngu leggja fram það sem verið er að breyta.

2. Það er verið að breyta of miklu í einu. Vænlegra til árangurs er að einbeita sér að nauðsynlegum breytingum og endurskoða aðra hluta síðar. Ef lagðar eru til of miklar breytingar verður niðurstaðan oft að engu er breytt.  Best hefði verið að leggja eingöngu til nauðsynlegar breytingar á ákvarðanatökuferlinu en ekki hreyfa við öðrum þáttum. Þá hefði verið hægt að setja í gang vinnu við að skoða einstök atriði í sáttmálum ESB er varðan mismunandi efnilega þætti.

Endalaus áhersla ESB á að minnka regluverk og efla innri markaðinn án þess að á sama tíma að leggja mikla áherslu á stefnumótun og samráð milli aðildarríkja sérstaklega á félagslega sviðinu. Eins og ég skyldi útkomuna í Frakklandi í fyrra þá voru tvö atriði sem stóðu uppúr. Annars vegar andstaða við að sáttmáli (treaty) væri kallaður stjórnarskrá og hins vegar að félagslegir þættir hefðu orðið útundan. Hver voru viðbrögð forystu ESB? Leiðtogarnir töldu að mikilvægast væri að draga úr reglusetningu - sem er gott og gilt - og draga úr stefnumótunarstarfi á einstökum sviðum sérstaklega varðandi félagslega þætti. Svo var líka lögð áhersla á að reyna að koma í gegn öllum eða svotil öllum breytingum sem voru í stjórnarskránni svokölluðu.

Leiðtogar ESB eru að mínu mati að gera slæm mistök þar sem nokkuð víst er að þessi nýji sáttmáli verður ekki samþykktur í nokkrum löndum og óvíst í mörgum öðrum.  Kannski kemur best í ljós í þessu máli hve fjarlægir leiðtogar a.m.k. margra landa eru frá kjósendum og skilja ekki af hverju menn samþykkja ekki allt án umhugsunar. 

Er ekki kominn tími til að menn hugsi þróun ESB aðeins uppá nýtt og fresti frekari fjölgun á aðildarríkjum. Mun betra væri fyrir ESB að bjóða þeim sem áhuga hafa á að tengjast innri markaðnum uppá svipað eða samskonar fyrirkomulaga og EES. Jafnvel að taka upp viðræður við Ísland, Noreg og Liechtenstein um stækkun á EES. Yrði líklega betri lausn heldur en að fjölga aðildarríkjum og þar með flækja ákvarðanatökuferli innan ESB. Flest ríki sem nú eru að leita eftir aðild myndu telja það nóg sem fyrsta skref enda er það innri markaðurinn sem þau eru að leita eftir.


mbl.is Stuðningur Íra við umbætur ESB fer minnkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætla þeir að gera?

Bandaríkjamenn eru í erfiðri stöðu til að gera eitt eða neitt varðandi ástandið í Pakistan og Musharraf veit það mjög vel. Pakistan er lykilbandamaður Bandaríkjanna varðandi baráttu við öfga múslima sérstaklega á landamærum Pakistan og Afganistan. Stór hluti af fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna við Pakistan er vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Hvað geta þeir þá gert? Mögulega skortið niður fjárhagsaðstoð sem kemur baráttunni gegn hryðjuverkum við. Óvissa er um hvaða afleiðingar það myndi hafa og jafnvel gæti takmarkað vilja Musharraf til að halda baráttunni gegn öfgaöflum. Ennfremur yrði það líklegt til að styðja við öfgahópana enda gætu þeir bent á það sem yfirgang Bandaríkjanna í innanríkismál Pakistan. Þ.e. ekki bara gegn öfgahópunum heldur gegn öðrum íbúum Pakistan. 

Hvað er annað sem þeir geta gert? Þeir geta haldið áfram að segja hvað þeir eru ósáttir við ákvörðun Musharraf. Þeir geta haldið áfram mótmælum. Á sama tíma er ljóst að þeir geta ekki án hans verið. Hver af mögulegum stjórnmálaleiðtogum gæti verið sambærilegur bandamaður?

Staðan er því erfið fyrir Bandaríkjamenn og lítið sem þeir geta gert á meðan þeir gæta sinna eigin hagsmuna. Musharraf er líka í erfiðri stöðu en hann veit líka að hann er eini kosturinn fyrir Bandaríkin og að á meðan svo er þá munu þeir gera það sem þarf til að styðja hann beint og óbeint. Ætli líklegast sé ekki að í Bandaríkjunum verði öll fjárhagsaðstoð skilgreind sem hluti af baráttunni gegn hryðjuverkum og ekkert muni breytast í raun eða að ekkert mun breytast og viðbrögð Vesturlanda verði eins og oftast stormur í vatnsglasi. 


mbl.is Bandaríkjamenn hvetja Musharraf til að snúa aftur til lýðræðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm tíðindi fyrir ríkisstjórnina eða þannig

Skemmtilegt að vera í ríkisstjórn að þegar fylgið fer niður þá er fylgið samt 76%. Flestar ríkisstjórnir heims eða a.m.k. þess lýðræðislega vildu hafa svona mikinn stuðning. Auk þess eru stjórnarflokkarnir með gott fylgi. Eðlilegt er að fylgi ríkisstjórna fari niður nokkrum mánuðum eftir að þeir taka við og annað væri skrýtið. Nú munu líklega einhverjir stjórnarandstæðingar reyna að segja að eitthvað sé að á stjórnarheimilinu. Auðvitað er það eingöngu draumsýn og menn halda áfram að vera í veikri stjórnarandstöðu.

Núverandi ríkisstjórn hefur þó einn meginvanda og það er að fylgið er líklega of stórt. Styrkur ríkisstjórnarinnar gæti jafnvel unnið gegn þeim í næstu kosningum þar sem lítil þörf er fyrir aga þar sem margir þingmenn geta jafnvel kosið í þinginu gegn ríkisstjórninni og samt kemur hún sínum málum í gegn. Enn fleiri geta setið hjá.  


mbl.is Fylgi við ríkisstjórnina minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 763

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband