Af hverju má ekki hafa gæludýr?

Alltaf vekur það furðu mína þegar maður heyrir þessi dæmi um reglur sem banna gæludýr hvort sem er á hjúkrunar- og dvalarheimilum eða í blokkum. Hver er skaði þessara dýra?

Fyrir okkur gæludýraeigendur þá veita dýrin okkur mikla ánægju og skemmtilegan félagsskap. Oft er furðulegt að sjá hvað þau skynja betur en nokkur manneskja hvernig okkur líður. Kötturinn minn er alveg með það á hreinu hvenær mér líður illa og hvenær mér líður vel. Þegar ég hef verið heima veikur þá kúrir hann bara hjá mér. Ekki er hann með læti eða miklar óskir um að leika við sig. Aftur á móti þegar hann veit að allt er í góðu lagi þá verður hann fjörugri og jafnvel heldur sig meira útaf fyrir sig. Ég á fiska líka og að dunda sér við að hugsa um þá veitir mér líka mikla ánægju, oft eru fiskabúrin mín betri en nokkuð sjónvarpsefni og að fylgjast með hvað smávægileg vinna fyrir mig hefur oft góð áhrif á lífríkið í búrunum.

Fyrir fólk sem hefur glatað starfsgetu og er einmanna þá getur gæludýr gert gæfumuninn milli ánægju af lífinu og mögulegu þunglyndi. Að hafa kött eða lítinn hund er frábært fyrir eldri borgara. Sérstaklega er gott ef að viðkomandi er með hund þar sem nauðsynlegt er að fara út með hundinn bæði til að gera þarfir sínar og til að fara á göngu. Ég hef sjálfur orðið vitni að því hve jákvæð áhrif t.d. heimsókn frá hundi hefur á gamla fólkið á þessum stofnunum. Það var sem lifnaði yfir mannskapnum og gott ef þeir sem varla brostu voru farnir að brosa. Gæludýr gera því eldri borgurum þessa lands ekkert nema gott og er ekki okkar skylda að leyfa þeim sem lagt hafa lífsstarf sitt til samfélagsins, að njóta síðustu ára sinna.

Hvað er það sem veldur að á Íslandi, ólíkt öllum nágrannaþjóðum okkar er svo mikið bann við dýrahaldi í þéttbýli? Ekki er það langt síðan við vorum flest flutt á mölina. Höfum við gleymt að dýr hafa alltaf verið mikilvægur þáttur í lífi íslendinga? Nú munu líklega einhverjir segja að sumir séu með ofnæmi. Vissulega er það rétt en á ofnæmi fárra að stjórna hvaða reglur gilda fyrir fjöldann. Auk þess hefur ofnæmi oft verið notuð sem ástæða til að losna við hund og önnur dýr úr blokkum. Ekki hefur viðkomandi þurft að leggja fram nokkra sönnun um ofnæmi og ef að rétt sé hjá þeim sem krefjast að t.d. hundur sé fjarlægður vegna ofnæmis þá erum við með einstaklega mikinn dýraofnæmisvanda á Íslandi, og eitthvað verður að gera til að lækna þetta umfangsmikla heilbrigðisvandamál. Að stórum hluta er ofnæmiskrafan tæki til að losna við dýr úr fjölbýlishúsum og hefur lítið sem ekkert með viðkomandi dýr að gera.

Eðlileg krafa hlýtur að vera að reglur um dýrahald séu sambærilegar á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa þar verið mikil vandamál eftir því sem ég best veit. Ég bý í Lúxemborg og man ekki eftir að hafa heyrt um mikil vandamál. Að vísu er ýmislegt gert til að auðvelda dýraeigendum að sinna skyldum sínum, t.d. að hreinsa upp eftir dýrin sín með því að hafa mikið af ruslatunnum og jafnvel ókeypis poka á mörgum stöðum. Er ekki kominn tími til að Íslendingar hætti að banna allt og geri frekar það litla sem þarf til að hjálpa dýraeigendum að sinna sínum skyldum.


mbl.is Afþakka vist vegna gæludýrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valbjörn Júlíus Þorláksson

Ég er ekki að reyna að búa til rifrildi eða neitt, en þú sérð ekki hina hliðina á málinu.  Ég er t.d. með mikið ofnæmi fyrir köttum og bara það að einhver í sama stigagangi í blokk myndi eiga kött myndi orsaka það að ég yrði kvefaður og fengi slæma hálsbólgu þar til ég myndi gefast upp.  Tæki svona 10 daga þá væri ég farinn að hósta blóði.  Hef þurft að hætta að vinna á vinnustað þar sem vinnufélagar áttu ketti, báru með sér ofnæmisvaldinn í fötum.  Það eru ótrúlega margir með ofnæmi fyrir köttum og prósentan eykst á hverju ári.  Og í blokkum þarf bara einn í húsinu að segja nei, og þá mega ekki vera dýr í húsinu samkvæmt lögum.  Sem mér persónulega finnst mjög gott.

kv.

Valli 

Valbjörn Júlíus Þorláksson, 19.11.2007 kl. 09:34

2 identicon

Valli hittir naglann á höfuðið.

Þetta er mjög algengt vandamál á Íslandi og hjá þeim sem verst eru settir getur það verið lífshættulegt. Móðir mín er meðal þeirra sem falla í seinni hópin og hefur þurft að fara á sjúkrahús til að fá sprautur og láta tengja sig við súrefnisvél í neyðartilfellum.

Það eru örugglega til einhverjir sem gera sér þessi veikindi upp, það er leitandi að þeim kvilla sem einhver hefur ekki logið til um og alltaf er það jafn ósmekklegt athæfi.

Hins vegar er það frekar leiðinlegt að vera vændur um dýrahatur og lygi þegar eina krafan er um súrefni. Móðir mín elskar dýr og það var henni mjög sárt að þurfa að hætta að umgangast þau en svona er lífið og til að fá að halda áfram að njóta þess þarf stundum að færa fórnir.

Ég held að þú ættir aðeins að hugsa þinn gang og setja þig í spor ofnæmissjúklinga áður en þú gengur út frá því að allir séu gegn dýrum og mikið samsæri sé í gangi.

Gunnar Hrafn Jónsson 19.11.2007 kl. 09:49

3 Smámynd: Daði Einarsson

Gera verður skýran greinarmun á tilvikum sem þið báðir vísið til, þ.e. þar sem um sannarlegt ofnæmi er að ræða. Annað er þegar ofnæmi er notað sem ástæða fyrir að fjarlægja eigi dýr, þó að viðkomandi geti á húsfundi setið við hliðina á t.d. kattareiganda og haft engin vandamál. Eðlilegt er auðvitað að sá sem fer fram á að dýr sé fjarlægt vegna ofnæmis leggi fram sönnun þess t.d. læknisvottorð og það ætti ekki að vera vandamál í þeim tilvikum sem þið báðir nefnið.

Aftur á móti er meginspurningin þessi: af hverju þarf á Íslandi að vera bann við dýraeign í þéttbýli eða a.m.k. í fjölbýlishúsum á meðan ekkert sambærilegt bann er að finna í nágrannalöndum okkar? Hver eru rökin fyrir því að þess sé þörf?

Daði Einarsson, 19.11.2007 kl. 10:20

4 identicon

Ég er sammála því að það ætti í það minnsta að leggja fram læknisvottorð - þó ekki væri nema til þess að taka pressuna af fólki sem raunverulega er með alvarlegt ofnæmi og lendir í því að fólk rengir orð þess.

 Lög um dýraeign eru líka stórfurðuleg hér á landi, ég hef aldrei skilið afhverju Íslendingar myndu allir deyja úr salmónellu ef eðlur og snákar væru leyfileg gæludýr hérna á meðan allar aðrar þjóðir virðast lifa í sátt og samlindi með slíkum dýrum. Það er vissulega snertur af hysteríu þegar kemur að umræðu um dýr hér á landi. 

Gunnar Hrafn Jónsson 19.11.2007 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband