Færsluflokkur: Bloggar

Af hverju til Kína?

Hver var ástæða þess að Bandaríski flotinn vildi senda stórt flugmóðurskip og fylgdarskip þess til Kína? Það er ekki eins og Kína sé skilgreint sem vinaríki í þeirra huga eða hvað. Eða er þeim svo mikið í mun að sigla til hvaða hafnar sem er. Hefði ekki verið betra að finna einhverja aðra höfn hjá vinsamlegri ríkjum? T.d. í Japan eða á Filippseyjum.


mbl.is Bandarískir sjóliðar fengu ekki að koma til hafnar í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agi er það sem þarf

Hlutverk foreldra er að ala upp börnin sín og hluti af því er að setja skýrar reglur. Eitt af því er að segja börnum sínum mörk t.d. varðandi sjónvarpsgláp, notkun á tölvum (fyrir utan heimanám), hvenær farið er að sofa. Ennfremur er mikilvægt að hvetja börnin til að taka þátt í öðru heldur en að vera bara eitt heima t.d. með því að taka þátt í félagsstörfum, íþróttum, o.fl. þar sem börnin eru með öðrum. Hér er um mikilvægan þátt til að þroska félagshæfni þeirra. Að sitja í tölvuleikjum klukkutímunum saman getur ekki verið gott og tímatakmörk sem eru haldin eru góð fyrir barnið. Ég veit að auðvitað er það ekki einfalt mál að setja þau mörk sem þörf er á og almennt séð að ala upp börn.

Hafa verður í huga að börn þurfa og oft vilja skýrar reglur sem eru alltaf þær sömu.


mbl.is Undirliggjandi vandi missi menn tökin á tölvunotkuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búlgarskt brúðkaup

Nú er maður ekki lengur einhleypur maður og er nýgiftur (eða á maður að segja nýkvæntur?). Brúðkaupið fór fram þann 11. nóvember í Sofíu í Búlgaríu og var auðvitað mjög búlgarskt. Allt sem var hefðbundið var byggt á búlgörskum hefðum enda gat ég ekki fundið neinar íslenskar á meðan undirbúningnum stóð.

Segja má að allt hafi verið mjög ólíkt því sem maður á að venjast. Í fyrsta lagi voru tvær athafnir - borgaraleg og trúarleg - sem er ein athöfn á Íslandi. Í öðru lagi þá eru ýmsar hefðir sem ég hafði aldrei leitt hugann að. Ennfremur er maður ekki með svaramenn heldur eru vitni sem verða að vera karl og kona. Vitnið mitt var Svala kona bróður míns og mjög góður vinur minn.

Áður en allt hófst þá þurfti ég að mæta ásamt vitnunum og fjölskyldu minni til að sækja brúðina. Það eru mikil læti enda hefð fyrir því að karlættingjar reyna að hindra að maður geti sótt brúðina. Að manni er réttur annar skór brúðarinnar og maður á þá að borga fyrir hana. Þeir voru ekki sáttir við fyrstu greiðslu en eftir aðra greiðslu var mér loksins hleypt inn. Vera var auðvitað gullfalleg í brúðarkjólnum og ég átti varla orð. Eftir smátíma í íbúðinni var farið í nálægan garð til að taka myndir af okkur og gestum okkar.

Að myndatöku lokinni var farið til yfirvalda þar sem hin lögformlega gifting fór fram. Athöfnin fór auðvitað fram á búlgörsku en Vera hafði áður þýtt allt fyrir mig, svo ég vissi nokkurn vegin hvar í athöfninni við vorum á hverjum tíma. Við höfðum okkar hluta (svar við stóru spurningunni og brúðkaupsheitið) bæði á búlgörsku og íslensku. Ég hafði æft mig mikið og komst nokkuð klakklaust frá þessu þó að sú sem stjórnaði athöfninni breytti orðalaginu aðeins. Vera var mun betri þó að hún þyrfti að fara utanbókar (án þess að endurtaka eftir öðrum) íslensku útgáfuna.

Nú vorum við lögformlega gift. Við fórum eftir borgaralegu athöfnina yfir í Saint Sofia, sem er elsta kirkja í Sofíu, en þar fór fram trúarlega athöfn. Það var mikil upplifun enda er athöfnin í Rétttrúnaðarkirkjum nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast. Við byrjuðum á að ganga inn kirkjugólfið með tvö kerti sem voru tengd með gullnum borða. Miðja leið voru hringarnir settir á okkur. Fyrst hálfa leið og svo kom kvenvitnið til að krossa hringana þrisvar. Þá voru hringarnir teknir aftur og gengið var alla leið inn kirkjugólfið. Þar voru hringarnir blessaðir þrisvar og loksins settir á okkur. Þá tók við athöfn við að setja á okkur kórónur og allt gert þrisvar áður en við kysstum kórónuna og hún var sett á höfðið á okkur. Svo var drukkið vín og auðvitað þrisvar. Að því loknu kom karlvitnið og krossaði kórónurnar þrisvar fyrir framan okkur. Að lokum fórum við þrisvar í kringum borð með kórónurnar á höfðinu á eftir prestinum. Sem betur fer voru kórónurnar þá teknar af okkur, enda hafði ég helst á tilfinningunni að kórónan myndi falla af höfðinu á mér. Við vorum ekki spurð hvort við vildum eiga hvort annað enda gert ráð fyrir því eftir að við höfðum gengið í hjónaband hjá yfirvöldunum.

Loksins kom að veislunni og við komum skv. hefð síðust inn ásamt vitnunum. Tvær hefðir tóku við um leið og við gengum inn. Fyrst var hefðbundin athöfn þar sem móðir brúðguma býður brúðina velkoman í fjölskylduna. Hún (móðir brúðguma) brýtur smábita af brauði og dýfir í salt og gefur nýju hjónunum og svo líka bita sem dýft er í hunang. Næsta hefð var að litlum potti með rauðu og hvítu blómi var sparkað. Samkvæmt hefð þá er það blóm sem kemur útúr pottinum tákn um hvort að frumburðurinn verði stelpa eða strákur. Hvíta blómið þýðir stelpa en það rauða strákur - ef ég man rétt - en ef bæði koma út þá verða það tvíburar. Og viti menn að útúr pottinum komu bæði blómin. Vonandi rætist þetta nú ekki enda held ég að nóg sé að fást við eitt ungabarn í einu.

Veislan hófst þá af fullum krafti og fljótlega byrjaði fólk að ná sér í mat í hlaðborðið og auðvitað drekka. Auðvitað var mikið dansað. Við Vera höfðum áður farið til danskennara til að við gætum komið vel fyrir þegar við dönsuðum okkar fyrsta dans og það gekk allt upp. Sumir drukku meira í veislunni en líklega í mörg ár og voru einstaklega kátir en án þess að vera til vandræða. T.d. held ég að bróðir minn hafi ekki drukkið svo mikið í fjöldamörg ár. Ekki að skilja að hann hafi verið ofurölvi, en gaman að sjá hann skemmta sér svona vel.

Nú er öllu þessu lokið en að lokum og nokkuð skrítið að nú sé eiginkona mín með mitt föðurnafn til viðbótar við sitt ættarnafn og heitir því fullu nafni núna Vera Kopoeva-Einarsson. Að lokum eru hér tvær myndir af okkur, sem voru teknar af kollega Veru. Önnur með vitnunum og hin með foreldrunum.

 


Hver er maðurinn?

Þar sem ég vann leikinn hjá Ásdísi Sig. með því að giska á Jenný þá kem ég hér með nýja gátu.

Maðurinn er útlendingur og er rétt rúmlega fimmtugur.


Giftingarstress

Nú er allt í einu að hellast yfir mig meiriháttar giftingarstress. Nú eru innan við tvær vikur þangað til athafnirnar fara fram þ.e. bæði borgaraleg og kirkjuleg. Báðar athafnir munu fara fram á búlgörsku og ég mun varla skilja orð, en sem betur fer verður túlkur a.m.k. fyrir þá borgaralegu. Ég fór nú loksins að hugsa hvað ég þarf að gera þ.e. fyrir utan að segja da (já) á réttum stað. Ég fór að skoða þetta betur og það er fullt af hlutum sem ég get auðveldlega klúðrað.

Hingað til hef ég bara haft áhyggjur af búlgörskum hópdansi sem ég verð að leiða. Mér er þó nokk sama um það enda hef ég fyrir löngu komið þeim skilaboðum á framfæri að ef að dansinn er öðruvísi en ætlast er til, að um sé að ræða íslenska túlkun eða útfærslu. Auk þess er flestum sama enda fólk þá farið að drekka, já og svo er mér auðvitað sama enda verður þá mikilvægasta hlutanum lokið.

Ég hef að vísu ekki alveg farið í gegnum athafnirnar með unnustunni en miðað við það sem ég hef lesið er um gífurlega mörg tækifæri til að klúðra eða vera mér til skammar. Aðallega þó í kirkjulegu athöfninni, enda verður sett á mann kóróna og ég held að maður verði að labba í kringum eitthvað borð þrisvar. Í Rétttrúnaðarkirkjum virðist allt vera gert þrisvar.

En skiptir það síðan í raun einhverju máli ef maður klúðrar einhverju? Hvernig sem allt fer þá verður maður hamingjusamlega giftur eftir vonandi góðan dag.


Fær ekki einu sinni Kanada að vera í friði?

Yfirgangur Bush og félaga er með ólíkindum. Nú heldur útþenslustefna þeirra áfram og Kanada fær nú að verða fyrir barðinu á þeim. LoL

Merkilegast við þessa frétt er þó að þeir neita að leiðrétta myndbandið. Auðvitað gera menn mistök einstöku sinnum og þá er bara að laga hlutina. Ef þörf er á biðjast menn bara afsökunar og málið er úr sögunni. En í staðinn þá á ekki að breyta myndbandinu og varla verða Kanadamenn ánægðir með það.


mbl.is Bandaríkjamenn „innlima“ frægasta foss í Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er kominn vetur í Lúx

Ég þurfti í fyrsta skipti í langan tíma að skafa af bílnum mínum þegar ég kom að honum í morgun. Það er að vísu aldrei erfitt en leiðinlegt þó. Í morgun var um frostmark hér í Lúx og ég er ekki frá því að þó að ekki sé vindur þá sé kuldinn verri hér en heima. Kannski er bara of langt síðan ég hef verið heima. En það góða hér er að það hitnar tiltölulega fljótlega þegar líður á daginn og þá er mjög gott að oftast hreyfir varla vind. Kannski að maður neyðist þó að taka fram vetrarfötin.

Margt er skrítið ... í bankahausnum

Stundum geta fastar reglur banka verið fyndnar. Ég tók lán hjá bankanum mínum hér úti í Lúx þegar ég keypti bílinn minn. Allt í góðu með það og lánið var til 18 mánaða svo að síðasta greiðsla af láninu átti að vera um síðustu mánaðarmót. Greiðslur á láninu voru fastsettar þannig að alltaf var tekin sama upphæðin af reikningnum hjá mér. Ég gerði ráð fyrir að við síðustu greiðslu þá yrði það sem eftir stæði greitt þó að vaxtaþróun eða eitthvað annað hefði aðeins breytt hver upphæðin var.

Ég fór því inn á heimabankann stuttu eftir mánaðarmótin enda alltaf gaman þegar lán eru uppgreidd og maður sér þau ekki lengur í heimabankanum. En svo var ekki. Af einhverjum ástæðum - líklega aðeins hærri vöxtum eða eitthvað álíka - þá stóðu eftir 15 cent. Þannig að um næstu mánaðarmót mun ég líklega borga þessi 15 cent og þar með verður það lægsta afborgun sem ég hef nokkru sinni innt af hendi.

Margt er skrítið í bankahausnum LoL


Dýr sjúkrabíll

Ég var í síðustu viku í Brussel á ráðstefnu og lenti í því að vera fluttur á slysavarðstofu á sjúkrahúsi - að vísu að óþörfu en það er annað mál. Ég var nú að fá reikninginn fyrir sjúkrabílnum og hann er rúmar 52 evrur fyrir 4 km leið. Þegar ég kom nokkrum tímum síðar til baka af sjúkrahúsinu þá tók ég leigubíl sem kostaði um 7 evrur. Meira okrið hjá Rauða krossinum í Belgíu. Betra hefði verið að skella mér í leigubíl fyrst að fólk vildi - gegn ráðum lækna sem voru á ráðstefnunni - senda mig á sjúkrahús. Auðvitað er sjálfsagt að það kosti eitthvað meira að vera fluttur með sjúkrabíl en leigubíl en er ekki vel rúmlega sjöfaldur munur aðeins of mikið?

Hvað hefur orðið um Hreiðar Eiríks?

Ég veit að ég hef verið í burtu í nokkra daga en nú finn ég ekki bloggið hans Hreiðars Eiríkssonar (slubbert). Þegar ég klikka á það þá er eins og það sé ekki til lengur. Gaman væri að vita hvað hefur orðið um það.

Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 677

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband