Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Skynsamleg nálgun

Pakistanar eru raunsæir og sýna það vel í baráttunni við hryðjuverkamenn í landinu. Ekki er farið mjúkum höndum um þá og ekki er verið að sóa takmörkuðum liðsafla til að leita uppi einn mann. Bin Laden er, eða var, mikilvægur og það yrði móralskur sigur að ná honum en hann er ekki endilega lykillinn að sigri eða halda menn að með handtöku hans myndi Al Queda falla saman og hryðjuverk öfgahópa hætta. Til að ná að vinna þessa öfgahópa þá þarf að ráðast gegn þeim á tveimur vígstöðvum. Í fyrsta lagi með öflugum hernaði gegn þeim til lengri tíma og þeir fái aldrei frið til að ná vopnum sínum á ný. Í öðru lagi þarf með ýmsum samfélagslegum aðgerðum að draga úr þeim áhrifaþáttum sem ýta undir líkurnar á að ungir menn gangi til liðs við þessa öfgahópa og séu jafnvel tilbúnir að fremja sjálfsmorð fyrir málstaðinn. Hér eru t.d. aðgerðir eins og menntun, ýta undir betra efnahagsástand (aukin atvinna), o.fl. sem skiptir miklu máli.

Fyrir Bandaríkjamenn hefur það verið mikið atriði að ná Bin Laden, en þeir átta sig oft ekki á því að hann er ekki lykilatriði og að þeir sem ganga til liðs við öfgahópa eru endilega ekki of trúaðir. Þessir ungu menn sjá oft öfgahópana sem einu leiðina annað hvort útúr vonlausum aðstæðum eða til baráttu gegn einræðisherrum. Oft fara þessir þættir saman. T.d. er ekki að furða að stór hópur hryðjuverkamanna öfgahópa kemur frá Saudi Arabíu. Er ekki kominn tími á að fara að gagnrýna alvarlega stjórnvöld þar og reyna að ýta undir umbætur í landinu? 


mbl.is Ekki leitað að bin Laden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími til?

Gott er að vita til þess að ýtt er á að framfylgja lögum í landinu þegar kemur að hlutverki eins trúfélags í skólum landsins. Varla er eðlilegt að trúboð fari fram í skólum sem börn landsins verða að sækja. Að fermingarfræðsla eða ferðir fari fram á skólatíma á auðvitað ekki að þekkjast. Í samfélagi sem tekur skýrt fram í stjórnarskrá, lögum og sáttmálum sem hafa verið undirritaðir að öll trúarbrögð séu jafnrétthá, þá getur ekki verið eðlilegt að einu sé hyglað meira en öðru. Að vísu segir líka í stjórnarskránni að ríkið skuli styðja við Þjóðkirkjuna, en menn hafa varla verið að hugsa um að kirkjan gæti haft svo greiðan aðgang að börnunum.

Best er fyrir alla aðila að hafa skýran aðskilnað milli skóla og kirkju, enda verður að hafa í huga að í skólum landsins eru börn með mismunandi trúarbrögð sem tilheyra jafnvel mismunandi trúfélögum innan sömu trúar s.s. kaþólskir, mótmælendur, o.fl. 


mbl.is Áfram deilt um Krist í kennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búlgarskt brúðkaup

Nú er maður ekki lengur einhleypur maður og er nýgiftur (eða á maður að segja nýkvæntur?). Brúðkaupið fór fram þann 11. nóvember í Sofíu í Búlgaríu og var auðvitað mjög búlgarskt. Allt sem var hefðbundið var byggt á búlgörskum hefðum enda gat ég ekki fundið neinar íslenskar á meðan undirbúningnum stóð.

Segja má að allt hafi verið mjög ólíkt því sem maður á að venjast. Í fyrsta lagi voru tvær athafnir - borgaraleg og trúarleg - sem er ein athöfn á Íslandi. Í öðru lagi þá eru ýmsar hefðir sem ég hafði aldrei leitt hugann að. Ennfremur er maður ekki með svaramenn heldur eru vitni sem verða að vera karl og kona. Vitnið mitt var Svala kona bróður míns og mjög góður vinur minn.

Áður en allt hófst þá þurfti ég að mæta ásamt vitnunum og fjölskyldu minni til að sækja brúðina. Það eru mikil læti enda hefð fyrir því að karlættingjar reyna að hindra að maður geti sótt brúðina. Að manni er réttur annar skór brúðarinnar og maður á þá að borga fyrir hana. Þeir voru ekki sáttir við fyrstu greiðslu en eftir aðra greiðslu var mér loksins hleypt inn. Vera var auðvitað gullfalleg í brúðarkjólnum og ég átti varla orð. Eftir smátíma í íbúðinni var farið í nálægan garð til að taka myndir af okkur og gestum okkar.

Að myndatöku lokinni var farið til yfirvalda þar sem hin lögformlega gifting fór fram. Athöfnin fór auðvitað fram á búlgörsku en Vera hafði áður þýtt allt fyrir mig, svo ég vissi nokkurn vegin hvar í athöfninni við vorum á hverjum tíma. Við höfðum okkar hluta (svar við stóru spurningunni og brúðkaupsheitið) bæði á búlgörsku og íslensku. Ég hafði æft mig mikið og komst nokkuð klakklaust frá þessu þó að sú sem stjórnaði athöfninni breytti orðalaginu aðeins. Vera var mun betri þó að hún þyrfti að fara utanbókar (án þess að endurtaka eftir öðrum) íslensku útgáfuna.

Nú vorum við lögformlega gift. Við fórum eftir borgaralegu athöfnina yfir í Saint Sofia, sem er elsta kirkja í Sofíu, en þar fór fram trúarlega athöfn. Það var mikil upplifun enda er athöfnin í Rétttrúnaðarkirkjum nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast. Við byrjuðum á að ganga inn kirkjugólfið með tvö kerti sem voru tengd með gullnum borða. Miðja leið voru hringarnir settir á okkur. Fyrst hálfa leið og svo kom kvenvitnið til að krossa hringana þrisvar. Þá voru hringarnir teknir aftur og gengið var alla leið inn kirkjugólfið. Þar voru hringarnir blessaðir þrisvar og loksins settir á okkur. Þá tók við athöfn við að setja á okkur kórónur og allt gert þrisvar áður en við kysstum kórónuna og hún var sett á höfðið á okkur. Svo var drukkið vín og auðvitað þrisvar. Að því loknu kom karlvitnið og krossaði kórónurnar þrisvar fyrir framan okkur. Að lokum fórum við þrisvar í kringum borð með kórónurnar á höfðinu á eftir prestinum. Sem betur fer voru kórónurnar þá teknar af okkur, enda hafði ég helst á tilfinningunni að kórónan myndi falla af höfðinu á mér. Við vorum ekki spurð hvort við vildum eiga hvort annað enda gert ráð fyrir því eftir að við höfðum gengið í hjónaband hjá yfirvöldunum.

Loksins kom að veislunni og við komum skv. hefð síðust inn ásamt vitnunum. Tvær hefðir tóku við um leið og við gengum inn. Fyrst var hefðbundin athöfn þar sem móðir brúðguma býður brúðina velkoman í fjölskylduna. Hún (móðir brúðguma) brýtur smábita af brauði og dýfir í salt og gefur nýju hjónunum og svo líka bita sem dýft er í hunang. Næsta hefð var að litlum potti með rauðu og hvítu blómi var sparkað. Samkvæmt hefð þá er það blóm sem kemur útúr pottinum tákn um hvort að frumburðurinn verði stelpa eða strákur. Hvíta blómið þýðir stelpa en það rauða strákur - ef ég man rétt - en ef bæði koma út þá verða það tvíburar. Og viti menn að útúr pottinum komu bæði blómin. Vonandi rætist þetta nú ekki enda held ég að nóg sé að fást við eitt ungabarn í einu.

Veislan hófst þá af fullum krafti og fljótlega byrjaði fólk að ná sér í mat í hlaðborðið og auðvitað drekka. Auðvitað var mikið dansað. Við Vera höfðum áður farið til danskennara til að við gætum komið vel fyrir þegar við dönsuðum okkar fyrsta dans og það gekk allt upp. Sumir drukku meira í veislunni en líklega í mörg ár og voru einstaklega kátir en án þess að vera til vandræða. T.d. held ég að bróðir minn hafi ekki drukkið svo mikið í fjöldamörg ár. Ekki að skilja að hann hafi verið ofurölvi, en gaman að sjá hann skemmta sér svona vel.

Nú er öllu þessu lokið en að lokum og nokkuð skrítið að nú sé eiginkona mín með mitt föðurnafn til viðbótar við sitt ættarnafn og heitir því fullu nafni núna Vera Kopoeva-Einarsson. Að lokum eru hér tvær myndir af okkur, sem voru teknar af kollega Veru. Önnur með vitnunum og hin með foreldrunum.

 


Samningur ríkis og kirkju - er þetta eðlilegt?

Ég hef nú yfirleitt ekki velt því mikið fyrir mér hvernig þessum umræddu samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 1997 og nánari útfærslu 1998 er háttað. Oft er bent á þennan samning og jafnvel sem dæmi um að þrátt fyrir greiðslur úr ríkissjóði til Þjóðkirkjunnar sé þegar búið að aðskilja ríki og kirkju. A.m.k. halda sumir því fram.

Að mestu leyti er þetta samningur eins og hver annar nema að það virðist ekki vera neitt ákvæði um hvernig aðilar geti rift samningnum eða hver er gildistími samningsins. Eina sem ég gat í fljótheitum fundið um gildistíma að 15 árum eftir að samningurinn er gerður er hægt að endurskoða þá grein samkomulagsins sem fjallar um á hvaða grundvelli ríkið greiðir fyrir þ.e. laun hve margra presta o.s.frv. Varla getur þá verið um samkomulag við sjálfstæðan aðila að ræða. Frekar virðist að sem aðilar séu sammála um að Þjóðkirkjan haldi áfram að vera stofnun á vegum ríkisins þó með meira sjálfstæði heldur en aðrar stofnanir og forsendur rekstrarins eru fastsettar. Hvernig er það getur samningur milli sjálfstæðra aðila verið með engum gildistíma og engum ákvæðum um uppsögn samnings? Ég er hér úti í Lúx með leigusamning sem er til ákveðins tíma sem framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn að loknum gildistíma. Skýrar reglur gilda um hvernig báðir aðilar geta sagt upp samningi. Sambærileg ákvæði virðast ekki vera í þessum samningi milli íslenska ríkisins og hinnar hálfopinberu stofnunar, Þjóðkirkjunnar.

Stóra spurningin er kannski, hvernig getur Alþingi með staðfestingu á þessum samningi gefið í raun út skuldbindingu á hendi ríkisins til Þjóðkirkjunnar með engum endi, án þess að um opinbera stofnun er að ræða? Sama fyrirkomulag gildir ekki einu sinni um opinberar stofnanir þar sem fjárheimildir þeirra eru endurskoðaðar á hverju ári og oft er skorið niður. Er ekki kominn tími á að taka þetta samkomulag til endurskoðunar og í stað endalausrar skuldbindingar komi til lokauppgjörs eða eitthvað álíka. Varla getur það verið eðlilegt að í landi sem á að gilda trúfrelsi að ríkið skuldbindi sig til að greiða laun starfsmanna eins trúfélags.

Svo er kannski út af umræðu um hjónaband samkynhneigðra stóra málið fyrir Þjóðkirkjuna að ef hún er stofnun sem virðist af þessu samkomulagi, fellur hún þá ekki undir sambærileg réttindi og skyldur og hver önnur stofnun? Getur hún þá hafnað að veita öllum borgurum sömu þjónustu?


Orð að sönnu

Gaman að sjá að Tony Blair taki svo sterkt og skýrt til orða, enda er þörf á að halda því á lofti hvað Íranstjórn er að reyna og hefur verið að reyna árum saman. Hún vill fyrst og fremst breiða út byltinguna, sem er í raun ósköp eðlilegt. Svipað gerðu Sovétmenn víða um heim. Íran er þó nokkuð hættulegra þar sem þeir hafa það sem skýra stefnu að styðja við öfl sem vilja eyða ákveðnu fullvalda ríki. Þeir eru að vinna að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eru að ýta undir óstöðugleika í löndunum í kringum sig. Að vísu í Írak er það eiginlega of einfalt enda þurfa þeir ósköp lítið að gera þar sem klúður Bandaríkjamanna og þeirra bandamanna er af þeirri stærðargráðu.

Íran er að ýta undir fasíska hugmyndafræði og ólíkt kommunum þá byggir hugmyndafræði Írans á að draga úr réttindum fólks. Að færa fólk margar aldir aftur í tímann. A.m.k. í gömlu austurblokkinni höfðu t.d. konur talsverð réttindi sem þær hafa oft á tíðum misst eftir að löndin urðu frjáls undan oki kommúnismans. Kommúnisminn var slæmur en eins og allt með nokkrar - þó að vísu mjög fáar - góðar aukaverkanir. Ég get ekki séð að Íslamisminn hafi nokkrar góðar aukaverkanir a.m.k. fyrir venjulegt fólk.

Við þurfum að standa vörð um það frelsi sem við höfum aflað okkur á mörgum öldum, og að standa með hófsömum öflum - sérstaklega í múslimaríkjum - sem vilja ýta undir a.m.k. lágmarksfrelsi borgaranna. Því miður eru þau öfl oftast of veik.


mbl.is Blair sakar Írana um að styðja hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög jákvætt

Gott til þess að vita að leiðtogar múslima séu að lýsa sig tilbúna til að vinna að sáttum milli múslima og kristinna manna. Eins og þeir benda réttilega á þá eru meginátök nútímans byggð á trú eða a.m.k. réttlætt í trú. Öfgahópar múslima og kristinna hafa ýtt undir eða hafið átök sem nú geysa um allan heim. Ekki má heldur gleyma gyðingum í þessu, enda eru öfgamenn þar engu skárri en öfgamenn á öðrum stöðum.

En er raunhæft að átök sem varað hafa vel yfir 1000 ár eigi eftir hætta á næstu árum eða áratugum. Það er líklega mun lengra verkefni að ná sáttum en fyrsta skrefið að menn sættist á að vera ósammála um trú og að lifa í sátt og samlyndi með öðrum trúarbrögðum. Eingöngu með þeim hætti getur verið möguleiki á að kristnir menn og múslímar hætti að horfa á hin trúarbrögðin sem ógn og þar með verði grafið undan öfgahópum. En líklega er vænlegast til árangurs ef að trúarlegar stofnanir sem vilja þvinga vilja sínum upp á aðra, s.s. Vatíkanið, verði lagðar af og fólki gefið meira frelsi til að iðka sína trú án boða frá stofnunum sem þykjast vera handhafar sannleikans og/eða með bein tengsl við Guð (hver sem það er fyrir hvern og einn).

Trú getur verið til góðs en of oft hafa stofnanir viðkomandi trúarbragða ýtt undir ófrið og þjáningar.


mbl.is Múslímaleiðtogar hvetja til sátta múslíma og kristinna manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólska kirkjan er ótrúleg!

Það er merkilegt hve mikið rugl flæðir úr mörgum áhrifamönnum og talsmönnum kaþólsku kirkjunnar. Haldið hefur verið fram að smokkar komi ekki í veg fyrir HIV smit, að þeir smiti og nú að vísvitandi séu þeir með HIV veirunni. Það mætti halda að kirkjunnar mönnum sé annt um að eyða söfnuðum sínum. Öll vitleysan sem kemur frá þessum mönnum hefur verið hrakin með vísindalegum rökum trekk í trekk. Auðvitað er það rétt að skýrlífi er eina 100% örugga vörnin gegn kynsjúkdómum en varla getur það talist árangursrík leið, enda er ekki svo auðvelt að stjórna mannlegri hegðun. Miðað við þetta rugl sem kemur frá þessum biskup og öðrum sambærilegum, jafnvel æðstu mönnum kaþólsku kirkjunnar í heiminum eru dæmi um hvernig þeir haga sér gagnvart öllum þáttum samfélagsins, þá eru þeir sekir um að koma í veg fyrir að fólk verndi sig gegn sjúkdómum. Að vísu er það í takt við sögu kaþólsku kirkjunnar. Hafa ber í huga að kirkjan hefur mikil áhrif á hegðun kaþólikka sérstaklega þeirra sem minnsta menntun hafa og/eða mjög takmarkaðan aðgang að öðrum upplýsingum.

Ég vil taka fram til að forðast misskilning að auðvitað eru kaþólikkar almennt gott fólk eins og aðrir, en forysta kirkjunnar er oft á tíðum siðlaus og með litla umhyggju fyrir eigin fólki. 


mbl.is Ummæli erkibiskups um smokka vekja reiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir þessir bókstafstrúarmenn

Alltaf gaman þegar koma fréttir sem þessar um bókstafstrúarmenn sem brjóta lykilatriði í eigin trú til að ráðast gegn einhverju sem þeir eru á móti. Eða varla held ég að það að stefna vísvitandi lífi annarra í hættu sé í góðu lagi í þeirra trú. En hvað veit ég svosem. Bókstafstrúarmenn víðar eru með álíka vitleysisleg vinnubrögð. Reglulega heyrum við um aðgerðir bókstafstrúarmanna innan Íslam. Í Bandaríkjunum stand bókstafstrúarmenn að baki árásum á læknastofur sem framkvæma fóstureyðingar og jafnvel standa fyrir morðum á heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa framkvæmt fóstureyðingar. Hvort sem við erum trúuð eða ekki, þá hljóta meginatriði okkar lífsviðhorfa að ráða. Ekki finnst okkur réttlætanlegt að eyðileggja eigur fólks, eða ráðast á það bara vegna löglegrar hegðunar þeirra. Eða hvað?
mbl.is Útfararstofa brennd í Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga samkynhneigðir rétt á að geta gengið í hjónaband?

Um nokkurn tíma hefur verið deilt um hvort að samkynhneigðir eigi rétt á að ganga í hjónaband eins og gagnkynhneigðir þ.e. ekki bara staðfest samvist. Umræðan hefur blossað upp á ný að undanförnu vegna skoðanakönnunar meðal presta Þjóðkirkjunnar. En er kannski ekki nokkuð um misskilning í málinu þegar litið er til þess að hjónabandið er fyrir flestum borgarleg stofnun en ekki trúarleg. Þegar þeir sem eru fylgjandi að samkynhneigðir eigi að geta gengið í hjónaband þá er mikið talað um að veita trúfélögum heimild. Á meðan tala ákveðnir talsmenn kristinnar trúar hér á moggablogginu eins og með því sé verið að þvinga ákveðin trúfélög eins og t.d. Þjóðkirkjuna til að gefa saman samkynhneigt fólk á sama hátt og gagnkynhneigt. En er ekki best að taka hinn borgaralega gjörning sem hjónabandið er fyrst og fremst í dag úr höndum trúfélaga?

Víða erlendis t.d. í Þýskalandi, Lúxemborg, Belgíu, Frakklandi og víðar er það borgaraleg athöfn og svo velur fólk hvort það vill líka ganga í hjónaband í kirkju. Hin kirkjulega athöfn er því meira blessun á hjónabandinu en nokkuð annað. Ég þekki þetta ágætlega þar sem ég er að ganga í hjónaband í Búlgaríu í nóvember og þá verður fyrst borgaraleg athöfn, svo kirkjuleg - í rétttrúnaðarkirkju - og svo í veisluna. Með því að taka upp samskonar fyrirkomulag á Íslandi þ.e. afnema umboð forstöðumanna safnaða (presta) til að gefa saman fólk í lögformlegum skilningi þá er trúfélögum í raun gefin heimild til að gefa saman samkynhneigt fólk ef þau vilja. Samkynhneigðir gætu því gengið í hjónaband en ef Þjóðkirkjan er andvíg kirkjulegu brúðkaupi samkynhneigðra þá er það þeirra mál og hefur sem slíkt ekki áhrif á önnur trúfélög.

En eiga samkynhneigðir rétt á að ganga í hjónaband? Auðvitað ef við erum sammála um að hjónabandið sé borgaraleg stofnun þá er það auðvitað réttur þeirra eins og gagnkynhneigðra. Það þýðir þó ekki að trúfélögum sé skylt að gefa saman samkynhneigð pör, aðalmálið er að allir hafi val. Ég sé aftur á móti ekki að það séu mannréttindi að fá að ganga í hjónaband í kirkju.


Smá trúarbragðapæling

Miðað við það litla sem ég hef lesið og lesið um biblíuna - frekar lítið eða svotil ekki neitt þó kristinn sé - þá eru dregnar upp mjög mismunandi myndir af Guð. Svo virðist sem að gamla testamentið sé allt um hve reiður Guð sé út í mennina næstum eins og hann sé alltaf í slæmu skapi. Hann leggur plágur á fólk, drekkir fólki o.fl. í þeim dúr. Meginskilaboðin virðast því vera flott ef þú hagar þér vel en ef þú hagar þér illa mun Guð senda eitthvað mjög slæmt á þig. Nokkuð önnur mynd er dregin upp í nýja testamentinu en þar er áherslan mun meir á kærleik og að okkur gagnist vel að fara að boðorðunum og almennt vera gott fólk, en ekki er um að ræða að Guð verði reiður við okkur í jarðvistinni. Hann mun aftur á móti senda okkur til helvítis ef við höfum ekki hagað okkur nógu vel eða tekið hans boðskap. Í heild er þetta næstum eins og að Guð hafi verið í frekar vondu skapi en séð að sér og sent son sinn til að laga til ímynd sína og breyta áherslum.

Stundum er þó eins og margir kristnir tali í samræmi við nýja testamentið en hagi sér í samræmi við það gamla. Enda hafa menn drýgt mörg fólskuverk í nafni kristinnar trúar.


Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband