Hver er maðurinn?

Þar sem ég vann leikinn hjá Ásdísi Sig. með því að giska á Jenný þá kem ég hér með nýja gátu.

Maðurinn er útlendingur og er rétt rúmlega fimmtugur.


Andstaða við breytingar vegna heimsku ...

... eða á kannski frekar að tala um það sem vanmat eða skort á skilningi á vilja kjósenda? Vandi forystumanna ESB er að þeir átta sig of oft ekki á af hverju fólk í aðildarríkjunum styðja og eru ánægð með aðild síns lands að ESB. Ennfremur virðast þeir oft ekki fatta að stór munur er milli ríkja þegar kemur að forgangsröðun í huga kjósenda á hvað ESB á að gera. Almennt séð má segja að almenningur í Evrópu vill að ESB sé ekki bara um markað heldur að sameiginlega sé ýtt undir evrópska nálgun í ákveðnum málaflokkum. Hér má horfa sérstaklega til félagslegra þátta og þar með talið heilbrigðismál. 

Of miklar breytingar eru slæmar og að flækja málið of mikið er slæmt. En af hverju á ekki að búa til einn sáttmála fyrir ESB? Tvennt kemur til að mínu mati:

1. Í raun er þegar um einn sáttmála að ræða sem hefur breyst með nýjum viðbótum eða breytingum. Svipað og þegar lögum er breytt þá er ákveðnum þáttum breytt en ef hægt er að komast hjá því þá er ekki lögunum breytt í heild sinni. Allir sáttmálar ESB mynda í raun einn sáttmála. Algjör óþarfi er því að bera undir kjósendur þann hluta sem hefur þegar verið samþykktur. Þessi árátta hjá leiðtogum ESB að búa til nýjan sáttmála til að leysa Rómarsáttmálann af hólmi er ekki vænleg til árangurs og ekkert er af því að hafa ekki heildarsáttmála samþykktan sem slíkan enda hafa viðkomandi atriði þegar verið samþykkt. Besta leiðin til að breyta ESB er að eingöngu leggja fram það sem verið er að breyta.

2. Það er verið að breyta of miklu í einu. Vænlegra til árangurs er að einbeita sér að nauðsynlegum breytingum og endurskoða aðra hluta síðar. Ef lagðar eru til of miklar breytingar verður niðurstaðan oft að engu er breytt.  Best hefði verið að leggja eingöngu til nauðsynlegar breytingar á ákvarðanatökuferlinu en ekki hreyfa við öðrum þáttum. Þá hefði verið hægt að setja í gang vinnu við að skoða einstök atriði í sáttmálum ESB er varðan mismunandi efnilega þætti.

Endalaus áhersla ESB á að minnka regluverk og efla innri markaðinn án þess að á sama tíma að leggja mikla áherslu á stefnumótun og samráð milli aðildarríkja sérstaklega á félagslega sviðinu. Eins og ég skyldi útkomuna í Frakklandi í fyrra þá voru tvö atriði sem stóðu uppúr. Annars vegar andstaða við að sáttmáli (treaty) væri kallaður stjórnarskrá og hins vegar að félagslegir þættir hefðu orðið útundan. Hver voru viðbrögð forystu ESB? Leiðtogarnir töldu að mikilvægast væri að draga úr reglusetningu - sem er gott og gilt - og draga úr stefnumótunarstarfi á einstökum sviðum sérstaklega varðandi félagslega þætti. Svo var líka lögð áhersla á að reyna að koma í gegn öllum eða svotil öllum breytingum sem voru í stjórnarskránni svokölluðu.

Leiðtogar ESB eru að mínu mati að gera slæm mistök þar sem nokkuð víst er að þessi nýji sáttmáli verður ekki samþykktur í nokkrum löndum og óvíst í mörgum öðrum.  Kannski kemur best í ljós í þessu máli hve fjarlægir leiðtogar a.m.k. margra landa eru frá kjósendum og skilja ekki af hverju menn samþykkja ekki allt án umhugsunar. 

Er ekki kominn tími til að menn hugsi þróun ESB aðeins uppá nýtt og fresti frekari fjölgun á aðildarríkjum. Mun betra væri fyrir ESB að bjóða þeim sem áhuga hafa á að tengjast innri markaðnum uppá svipað eða samskonar fyrirkomulaga og EES. Jafnvel að taka upp viðræður við Ísland, Noreg og Liechtenstein um stækkun á EES. Yrði líklega betri lausn heldur en að fjölga aðildarríkjum og þar með flækja ákvarðanatökuferli innan ESB. Flest ríki sem nú eru að leita eftir aðild myndu telja það nóg sem fyrsta skref enda er það innri markaðurinn sem þau eru að leita eftir.


mbl.is Stuðningur Íra við umbætur ESB fer minnkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætla þeir að gera?

Bandaríkjamenn eru í erfiðri stöðu til að gera eitt eða neitt varðandi ástandið í Pakistan og Musharraf veit það mjög vel. Pakistan er lykilbandamaður Bandaríkjanna varðandi baráttu við öfga múslima sérstaklega á landamærum Pakistan og Afganistan. Stór hluti af fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna við Pakistan er vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Hvað geta þeir þá gert? Mögulega skortið niður fjárhagsaðstoð sem kemur baráttunni gegn hryðjuverkum við. Óvissa er um hvaða afleiðingar það myndi hafa og jafnvel gæti takmarkað vilja Musharraf til að halda baráttunni gegn öfgaöflum. Ennfremur yrði það líklegt til að styðja við öfgahópana enda gætu þeir bent á það sem yfirgang Bandaríkjanna í innanríkismál Pakistan. Þ.e. ekki bara gegn öfgahópunum heldur gegn öðrum íbúum Pakistan. 

Hvað er annað sem þeir geta gert? Þeir geta haldið áfram að segja hvað þeir eru ósáttir við ákvörðun Musharraf. Þeir geta haldið áfram mótmælum. Á sama tíma er ljóst að þeir geta ekki án hans verið. Hver af mögulegum stjórnmálaleiðtogum gæti verið sambærilegur bandamaður?

Staðan er því erfið fyrir Bandaríkjamenn og lítið sem þeir geta gert á meðan þeir gæta sinna eigin hagsmuna. Musharraf er líka í erfiðri stöðu en hann veit líka að hann er eini kosturinn fyrir Bandaríkin og að á meðan svo er þá munu þeir gera það sem þarf til að styðja hann beint og óbeint. Ætli líklegast sé ekki að í Bandaríkjunum verði öll fjárhagsaðstoð skilgreind sem hluti af baráttunni gegn hryðjuverkum og ekkert muni breytast í raun eða að ekkert mun breytast og viðbrögð Vesturlanda verði eins og oftast stormur í vatnsglasi. 


mbl.is Bandaríkjamenn hvetja Musharraf til að snúa aftur til lýðræðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm tíðindi fyrir ríkisstjórnina eða þannig

Skemmtilegt að vera í ríkisstjórn að þegar fylgið fer niður þá er fylgið samt 76%. Flestar ríkisstjórnir heims eða a.m.k. þess lýðræðislega vildu hafa svona mikinn stuðning. Auk þess eru stjórnarflokkarnir með gott fylgi. Eðlilegt er að fylgi ríkisstjórna fari niður nokkrum mánuðum eftir að þeir taka við og annað væri skrýtið. Nú munu líklega einhverjir stjórnarandstæðingar reyna að segja að eitthvað sé að á stjórnarheimilinu. Auðvitað er það eingöngu draumsýn og menn halda áfram að vera í veikri stjórnarandstöðu.

Núverandi ríkisstjórn hefur þó einn meginvanda og það er að fylgið er líklega of stórt. Styrkur ríkisstjórnarinnar gæti jafnvel unnið gegn þeim í næstu kosningum þar sem lítil þörf er fyrir aga þar sem margir þingmenn geta jafnvel kosið í þinginu gegn ríkisstjórninni og samt kemur hún sínum málum í gegn. Enn fleiri geta setið hjá.  


mbl.is Fylgi við ríkisstjórnina minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra væri ef þeir hættu þessu alveg

Það eru ánægjulegar fréttir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi komið í veg fyrir að maður var tekinn af lífi í Mississippi í gærkvöldi. En því miður er hér bara um frestun að ræða á meðan Rétturinn tekur til meðferðar mál um hvort að aftaka með eitri sé grimm og ómannúðleg refsing þ.e. vegna þjáningarfulls dauðdaga.

Þó að vissulega sé gott að komið hafi verið í veg fyrir að þessi aftaka væri framkvæmd í gærkvöldi, þá væri betra ef að Bandaríkjamenn kæmu sér inn í nútímann og hættu villimannalegum refsingum. Refsingum sem byggja á auga fyrir auga tönn fyrir tönn hugsun. Kannski er ekki við góðu að búast við af þjóð sem er eins trúuð og kaninn. 


mbl.is Hæstiréttur aftraði dauðarefsingu á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumbyggjar Norðurlanda?

Hvaða fólk er það? Þ.e. fyrir utan Sama? Varla er maðurinn að tala um frumbyggja á öðrum stöðum eða hvað? Getur verið að hann sé að segja að við sem getum rakið ættir okkar margar aldir aftur í tímann séu frumbyggjar?

En að loftlagsbreytingum, þá er nokkuð furðulegt hvað pólitískur rétttrúnaður um loftlagsbreytingar af manna völdum á upp á pallborðið hjá sumum. Er virkilega þörf á einhverjum aðgerðum? Eru loftlagsbreytingar meiri nú en á öðrum tímum í veðurfarssögunni? Hvað með langtímasveiflur t.d. þá sem hófst í kringum 1400 á Íslandi (og auðvitað víðar)? Er ekki frekar um að ræða að í mesta lagi hafi mengun valdið meiri öfgum í veðri og jafnvel ýkt náttúrulegar sveiflur? Eru mótvægisaðgerðir líklegar til að skila árangri? Er kostnaðurinn við allar aðgerðir réttlætanlegar miðað við kostnað ef ekkert er gert?

Afsakið allar spurningarnar en ég er með margar enda finnst mér of margt óljóst í þessum málum. En hvað sem öllu líður þá er mengun slæm, ekki vegna loftlagsbreytinga, heldur vegna áhrifa mengunar á heilsu okkar. Gaman væri ef að menn einbeittu sér meira að því en dómdagsspám.


mbl.is Frumbyggjar Norðurlanda taki þátt í umhverfisumræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki í lagi með menn?

Er semsagt ástæða fyrir að kæra ríkið fyrir samkeppnisbrot að þeir hafa ekki keypt hugbúnað af þér og hanna sinn eigin hugbúnað í staðinn? Hvort að það sé hagkvæmara fyrir ríkið að standa í stórkostlegri þróun á hugbúnaði í þeim stofnunum sem nota hugbúnaðinn eða ekki er annað mál. Getur kannski verið að í þeim tilvikum sé einfaldlega hagkvæmara vegna sérþarfa að sjá um hönnun og viðhald á þeim hugbúnaði sem þörf er á í stofnunum sjálfum?

Oft getur verið auðveldara fyrir stofnanir að hanna hugbúnað vegna sérþarfa og ódýrara heldur en að kaupa hugbúnað sem leggja þarf í mikinn kostnað til að aðlaga að þörfum og/eða starfsaðferðum á viðkomandi stofnun. Ríkið kaupir mjög mikið af hugbúnaði af bæði innlendum og erlendum aðilum. Oft hefur ríkið haft slæma reynslu af hugbúnaði sem hefur verið keyptur og svo lítið gagnast í raunverulegu starfi viðkomandi starfsmanna.

Að íhuga að stefna ríkinu á því sem virðist vera fúlheit með að ná ekki að selja eigin hugbúnað er furðuleg hugmynd. Ég vona þeirra vegna að fréttin sé byggð á misskilningi en að menn séu ekki í alvöru að hugsa um að gera þetta.


mbl.is Hugbúnaðarráðuneyti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Giftingarstress

Nú er allt í einu að hellast yfir mig meiriháttar giftingarstress. Nú eru innan við tvær vikur þangað til athafnirnar fara fram þ.e. bæði borgaraleg og kirkjuleg. Báðar athafnir munu fara fram á búlgörsku og ég mun varla skilja orð, en sem betur fer verður túlkur a.m.k. fyrir þá borgaralegu. Ég fór nú loksins að hugsa hvað ég þarf að gera þ.e. fyrir utan að segja da (já) á réttum stað. Ég fór að skoða þetta betur og það er fullt af hlutum sem ég get auðveldlega klúðrað.

Hingað til hef ég bara haft áhyggjur af búlgörskum hópdansi sem ég verð að leiða. Mér er þó nokk sama um það enda hef ég fyrir löngu komið þeim skilaboðum á framfæri að ef að dansinn er öðruvísi en ætlast er til, að um sé að ræða íslenska túlkun eða útfærslu. Auk þess er flestum sama enda fólk þá farið að drekka, já og svo er mér auðvitað sama enda verður þá mikilvægasta hlutanum lokið.

Ég hef að vísu ekki alveg farið í gegnum athafnirnar með unnustunni en miðað við það sem ég hef lesið er um gífurlega mörg tækifæri til að klúðra eða vera mér til skammar. Aðallega þó í kirkjulegu athöfninni, enda verður sett á mann kóróna og ég held að maður verði að labba í kringum eitthvað borð þrisvar. Í Rétttrúnaðarkirkjum virðist allt vera gert þrisvar.

En skiptir það síðan í raun einhverju máli ef maður klúðrar einhverju? Hvernig sem allt fer þá verður maður hamingjusamlega giftur eftir vonandi góðan dag.


Fær ekki einu sinni Kanada að vera í friði?

Yfirgangur Bush og félaga er með ólíkindum. Nú heldur útþenslustefna þeirra áfram og Kanada fær nú að verða fyrir barðinu á þeim. LoL

Merkilegast við þessa frétt er þó að þeir neita að leiðrétta myndbandið. Auðvitað gera menn mistök einstöku sinnum og þá er bara að laga hlutina. Ef þörf er á biðjast menn bara afsökunar og málið er úr sögunni. En í staðinn þá á ekki að breyta myndbandinu og varla verða Kanadamenn ánægðir með það.


mbl.is Bandaríkjamenn „innlima“ frægasta foss í Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt?

Er það jákvætt að Aung San Suu Kyi hafi farið á fund með ráðherra herstjórnarinnar í Búrma? Er herforingjastjórnin að sýnast gagnvart alþjóðasamfélaginu? Enn sem komið er, þá er óljóst hvað býr að baki. Það er þó jákvætt að sýnt hafi verið frá fundinum í ríkissjónvarpinu í Búrma. Í raun eru tveir megin möguleikar sem mér dettur í hug og mjög ólíkir.

1. Herforingjastjórnin er að gera tilraun til að létta þrýstingi af sér og reyna að sýna að þeir séu tilbúnir til sátta. Þeir munu því í raun ekki láta neitt eftir að sýnum völdum en gæti verið tilbúnir að láta undir minniháttar kröfum. Engin ætlun að gera neitt frekar, nema þeir neyðist til og bara gera nógu mikið til þess að alþjóðasamfélagið dragi sig aðeins til baka eða að samstaða alþjóðasamfélagsins bresti. Kosningar yrðu þá líklega boðaðar en sett upp með þeim hætti að útkoma kosninga myndi ekki ógna of mikið þeirra völdum.

2. Herforingjastjórnin er að leita að leið út úr vandanum og að láta af völdum á eins virðulegan hátt og mögulegt er. Hluti af því væri að þeir fengju sakaruppgjöf og einhver skilgreind heiðurshlutverk. Þeir þyrftu þá að finna leið til að þróun í átt að lýðræði sýni að einhverju leyti þeirra frumkvæði.

Mikilvægast í þessu máli, óháð því sem herforingjastjórnin er til í að gera - er að alþjóðasamfélagið haldi áfram að þrýsta á herforingjastjórnina til að láta af völdum og koma á lýðræðislegri stjórn í landinu. Jafnframt að vera tilbúin að styðja nýja stjórn í uppbyggingu á efnahag landsins.


mbl.is Aung San Suu Kyi fundaði með fulltrúa herstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 768

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband