Búlgarskt brúðkaup

Nú er maður ekki lengur einhleypur maður og er nýgiftur (eða á maður að segja nýkvæntur?). Brúðkaupið fór fram þann 11. nóvember í Sofíu í Búlgaríu og var auðvitað mjög búlgarskt. Allt sem var hefðbundið var byggt á búlgörskum hefðum enda gat ég ekki fundið neinar íslenskar á meðan undirbúningnum stóð.

Segja má að allt hafi verið mjög ólíkt því sem maður á að venjast. Í fyrsta lagi voru tvær athafnir - borgaraleg og trúarleg - sem er ein athöfn á Íslandi. Í öðru lagi þá eru ýmsar hefðir sem ég hafði aldrei leitt hugann að. Ennfremur er maður ekki með svaramenn heldur eru vitni sem verða að vera karl og kona. Vitnið mitt var Svala kona bróður míns og mjög góður vinur minn.

Áður en allt hófst þá þurfti ég að mæta ásamt vitnunum og fjölskyldu minni til að sækja brúðina. Það eru mikil læti enda hefð fyrir því að karlættingjar reyna að hindra að maður geti sótt brúðina. Að manni er réttur annar skór brúðarinnar og maður á þá að borga fyrir hana. Þeir voru ekki sáttir við fyrstu greiðslu en eftir aðra greiðslu var mér loksins hleypt inn. Vera var auðvitað gullfalleg í brúðarkjólnum og ég átti varla orð. Eftir smátíma í íbúðinni var farið í nálægan garð til að taka myndir af okkur og gestum okkar.

Að myndatöku lokinni var farið til yfirvalda þar sem hin lögformlega gifting fór fram. Athöfnin fór auðvitað fram á búlgörsku en Vera hafði áður þýtt allt fyrir mig, svo ég vissi nokkurn vegin hvar í athöfninni við vorum á hverjum tíma. Við höfðum okkar hluta (svar við stóru spurningunni og brúðkaupsheitið) bæði á búlgörsku og íslensku. Ég hafði æft mig mikið og komst nokkuð klakklaust frá þessu þó að sú sem stjórnaði athöfninni breytti orðalaginu aðeins. Vera var mun betri þó að hún þyrfti að fara utanbókar (án þess að endurtaka eftir öðrum) íslensku útgáfuna.

Nú vorum við lögformlega gift. Við fórum eftir borgaralegu athöfnina yfir í Saint Sofia, sem er elsta kirkja í Sofíu, en þar fór fram trúarlega athöfn. Það var mikil upplifun enda er athöfnin í Rétttrúnaðarkirkjum nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast. Við byrjuðum á að ganga inn kirkjugólfið með tvö kerti sem voru tengd með gullnum borða. Miðja leið voru hringarnir settir á okkur. Fyrst hálfa leið og svo kom kvenvitnið til að krossa hringana þrisvar. Þá voru hringarnir teknir aftur og gengið var alla leið inn kirkjugólfið. Þar voru hringarnir blessaðir þrisvar og loksins settir á okkur. Þá tók við athöfn við að setja á okkur kórónur og allt gert þrisvar áður en við kysstum kórónuna og hún var sett á höfðið á okkur. Svo var drukkið vín og auðvitað þrisvar. Að því loknu kom karlvitnið og krossaði kórónurnar þrisvar fyrir framan okkur. Að lokum fórum við þrisvar í kringum borð með kórónurnar á höfðinu á eftir prestinum. Sem betur fer voru kórónurnar þá teknar af okkur, enda hafði ég helst á tilfinningunni að kórónan myndi falla af höfðinu á mér. Við vorum ekki spurð hvort við vildum eiga hvort annað enda gert ráð fyrir því eftir að við höfðum gengið í hjónaband hjá yfirvöldunum.

Loksins kom að veislunni og við komum skv. hefð síðust inn ásamt vitnunum. Tvær hefðir tóku við um leið og við gengum inn. Fyrst var hefðbundin athöfn þar sem móðir brúðguma býður brúðina velkoman í fjölskylduna. Hún (móðir brúðguma) brýtur smábita af brauði og dýfir í salt og gefur nýju hjónunum og svo líka bita sem dýft er í hunang. Næsta hefð var að litlum potti með rauðu og hvítu blómi var sparkað. Samkvæmt hefð þá er það blóm sem kemur útúr pottinum tákn um hvort að frumburðurinn verði stelpa eða strákur. Hvíta blómið þýðir stelpa en það rauða strákur - ef ég man rétt - en ef bæði koma út þá verða það tvíburar. Og viti menn að útúr pottinum komu bæði blómin. Vonandi rætist þetta nú ekki enda held ég að nóg sé að fást við eitt ungabarn í einu.

Veislan hófst þá af fullum krafti og fljótlega byrjaði fólk að ná sér í mat í hlaðborðið og auðvitað drekka. Auðvitað var mikið dansað. Við Vera höfðum áður farið til danskennara til að við gætum komið vel fyrir þegar við dönsuðum okkar fyrsta dans og það gekk allt upp. Sumir drukku meira í veislunni en líklega í mörg ár og voru einstaklega kátir en án þess að vera til vandræða. T.d. held ég að bróðir minn hafi ekki drukkið svo mikið í fjöldamörg ár. Ekki að skilja að hann hafi verið ofurölvi, en gaman að sjá hann skemmta sér svona vel.

Nú er öllu þessu lokið en að lokum og nokkuð skrítið að nú sé eiginkona mín með mitt föðurnafn til viðbótar við sitt ættarnafn og heitir því fullu nafni núna Vera Kopoeva-Einarsson. Að lokum eru hér tvær myndir af okkur, sem voru teknar af kollega Veru. Önnur með vitnunum og hin með foreldrunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband