Land geðveikinnar?

Eitthvað kemur það manni ekki á óvart að yfirvöld í landi Pútíns hagi sér með þessum hætti. Alþekkt aðferð til að þagga í óþægilegum röddum er að láta að því liggja að viðkomandi sé veill á geði. Í Rússlandi Pútíns er meira og meira farið að minna á hvernig málum var háttað á Sovét tímanum. Frelsi einstaklinga er skert, ráðist er gegn stjórnarandstæðingum, frjálsum fjölmiðlum lokað eða neyddir til að styðja við boðskap stjórnarherrana. Rússland er auk þess farið að hafa sig meira og meira í frammi sem um stórveldi væri að ræða. Líklega mun innan fárra ára vera komið á einveldi á ný. Pútín gerir það sem hann getur til að sýna mátt Rússlands og sérstaklega gagnvart ríkjunum sem áður voru hluti af Sovétríkjunum. Líklega verður þess ekki lengi að bíða að hann muni breyta Stjórnarskrá Rússlands svo að hann geti setið fleiri kjörtímabil sem Forseti.

 


mbl.is Stjórnarandstæðingur í Rússlandi látinn laus eftir nauðungarvist á geðdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er aðdáunarvert að lesa um skoðanir þínar á Rússlandi.  Þú ert með þetta allt á tæru.  Hvenær komstu til Rússlands síðast?  Búinn að ferðast mikið um þarna?  Hversu marga Rússa þekkir þú?  Hversu vel talar þú málið?  Hvaða bók um málefni Rússlands lastu síðast?

Karl Ferdinand 20.8.2007 kl. 14:44

2 Smámynd: Daði Einarsson

Hvað er það sem þú gerir athugasemd við? Ég fylgist nokkuð vel með því er varðar Rússa í heimsmálunum. Hvaða máli skiptir hvort ég hafi lesið einhverja bók um Rússland eða þekki Rússa eða tali rússnesku? Ég hef að vísu lesið nokkuð um Rússland, rætt við Rússa og annað fólk sem þekkir til í landinu. Gaman væri að heyra hvað það kemur málinu við.

Þróunin í Rússlandi er á einn veg þar sem stjórnin hefur á síðustu árum gert allt til að loka á frjálsan fréttaflutning, starfsemi stjórnarandstæðinga o.fl. Hvað kallarðu það annað sem hefur gerst t.d. bara á síðustu dögum. Hætt er útvarpssendingum BBC vegna þrýstings frá stjórnvöldum og nú er stjórnarandstæðingi sleppt eftir langa vist á geðdeild gegn hennar vilja.

Daði Einarsson, 20.8.2007 kl. 15:11

3 identicon

Sæll Daði.  Þú verður bara að fyrirgefa, en mér finnst að fólk eigi að hafa yfirgripsmikla þekkingu á því viðfangsefni sem það hefur sterkar skoðanir á. 

Ég myndi t.d. aldrei fara að hafa mjög sterkar skoðanir á Lúxemborg, því ég veit ekkert um Lúxemborg, hef aldrei komið til Lúxemborg og þekki engan frá Lúxemborg.  En ég hef sterkar skoðanir á Rússlandi því ég veit ýmislegt um Rússland (hef búið þar m.a).  Þessi fréttaflutningur á mbl.is og commentin við fréttirnar þar eru oft svo fáránlega vitlausar að það tekur engu tali. 

Þú spyrð mig:  "Hvaða máli skiptir hvort ég hafi lesið einhverja bók um Rússland eða þekki Rússa eða tali rússnesku?"

Þarf ég að útskýra það eitthvað?  Er ekki eðlilegt að spyrja hvaðan þessar skoðanir þínar koma?  Ég vona að þær komi ekki allar frá mbl.is.  Er ekki líka eðlilegt að vita hvort þú þekkir Rússa fyrst þú hefur svona sterkar skoðanir á landi þeirra og þjóð?

Þú segir:  "Í Rússlandi Pútíns er meira og meira farið að minna á hvernig málum var háttað á Sovét tímanum."

Þetta er einfaldlega alrangt.  Ef þú biður Rússa sem er kominn yfir fimmtugt t.d. að bera saman ástandið þegar hann var ungur maður og síðan núna þá er munurinn gríðarlegur.  Það er bara staðreynd sem ég get farið yfir lið fyrir lið ef þú vilt.

Einnig skrifar þú:  "Frelsi einstaklinga er skert, ráðist er gegn stjórnarandstæðingum, frjálsum fjölmiðlum lokað eða neyddir til að styðja við boðskap stjórnarherrana."

Frelsi einstaklinga hefur aldrei verið meira í Rússlandi.  Eru gallar á kerfinu?  Guð minn góður já.  Enn eru Rússar á réttri leið?  Það tel ég. 
Ég fór t.d. og fylgdist með mótmælagöngu Kasparovs, Limonov, Kasyanov og liðsmanna Yabloko núna í júní síðastliðinn í St. Pétursborg.  Labbaði þarna með þeim í notalegum fíling.  Enginn dó eða særðist, enda fór ekki hátt um þessa mótmælagöngu í fjölmiðlum.  Ef þessir menn hefðu mótmælt á þennan hátt á valdatíma keisarana eða kommúnistana þá væru þeir nú annaðhvort dauðir eða í útlegð í Síberíu.  Rússland á réttri leið?  Það held ég nú.

Og það er enn haugur af frjálsum fjölmiðlum í Rússlandi.  Blöð, tímarit, útvarpsstöðvar.  Engar sjónvarpsstöðvar þó sem ná yfir allt landið því miður, en athyglisvert væri fyrir þig að kanna feril fyrrum eigenda þessara sjónvarpsstöðva.  Þessir menn yrðu seint kallaðir fyrirmyndarborgarar.

Ég furða mig bara oft á þessum greinum á mbl.is um Rússland og síðan commentum eins og þínum um þessar greinar.  Þess vegna spurði ég þig hvaðan þessi þekking þín væri komin.  Fátt um svör enn sem komið er.

Bestu kveðjur,

Karl F. Th.

Karl Ferdinand 20.8.2007 kl. 16:35

4 Smámynd: Daði Einarsson

Sæll Karl, með fullri virðingu en þá mætti halda af þínu kommenti að þar sem ég hef ekki búið í Rússlandi eða tali málið að þá eigi ég ekki að hafa sterkar skoðanir á því í hvaða átt mér finnst Rússland vera að þróast.

Mínar skoðanir byggjast á fréttaflutningi ýmissa fjölmiðla þó að minnstu leyti á því sem kemur fram á mbl.is enda eru það mjög takmarkaðar og yfirborðslegar fréttir. Tek meira mark á fréttum BBC og fleiri erlendra fjölmiðla af svipuðu kaliber. Auk þess á ég oft samræður um mál sem tengjast Rússlandi við kollega sem þekkja þar vel til, auk þeirra Rússa sem ég hef rætt um málefni landsins við.

Kannski er meginmunur á okkar skoðunum um hvort Rússland sé að fara í rétta átt, við hvað við erum að miða. Þú miðar við ástandið eins og það var í Sovét en ég miða meira við tímann áður en Pútín tók við. Auðvitað er ástandið betra nú en á tíma Sovétsins en það þýðir ekki að þeir séu á réttri leið. Þeir hófu för sína í átt að lýðræði á góðan hátt undir stjórn Yeltsin en undir stjórn Pútín hefur verið mikil afturför.

Frelsi einstaklinga hefur verið skert miðað við hvað það var fyrir nokkrum árum. Mörgum frjálsum fjölmiðlum hefur verið lokað með aðgerðum yfirvalda. Ýmsum fjölmiðlum hefur verið hótað á einn eða annan hátt af stjórnvöldum landsins. Og nú síðast var lokað fyrir útvarpssendingar BBC. Varla er þetta dæmi um að mál séu að þokast í rétta átt. Ef þú vilt lýðræði og opna umræðu þá stendurðu ekki fyrir að loka frjálsum fjölmiðlum eins og Pútín hefur gert. Stjórnarandstæðingi er haldið gegn sínum vilja á geðdeild í 46 daga þó að ekkert sé að henni. Það er ekki fyrr en mannréttindasamtök hafa í nokkuð langan tíma reynt að fá hana lausa sem það gerist.

Pútín hefur að undanförnu gert það sem hann getur til að efla áhrif og helst óbein yfirráð yfir þeim ríkjum sem áður mynduðu Sovétríkin. Í Georgíu styður hann við uppreisnarmenn í Suður-Ossetíu. Í Úkraínu var Rússneska leyniþjónustan sterklega tengd morðtilraun á núverandi Forseta landsins (áður en hann varð forseti) með eitri. Í Eistlandi var að öllum líkindum Rússneska leyniþjónustan eða svipaðar stofnanir á bakvið árás á upplýsingatæknikerfi landsins. Ekki fyrir svo löngu síðan var skrúfað fyrir gas til Úkraínu og nú síðast hófu Rússar á ný hernaðarflug - svokallaðar eftirlitsferðir - út fyrir eigin lofthelgi.

Eru allt þetta góð dæmi um að Rússland sé á réttri leið? Hvort sem litið er til þess sem þeir gera innan landamæra Rússlands og utan þeirra, þá virðist draumurinn um gamla Sovét enn ofarlega í huga þeirra sem nú fara með völd í Kreml.

Varðandi eigendur ýmissa fjölmiðla og talverðan hluta af þeim nýríku í Rússlandi erum við örugglega nokkuð sammála um, enda bera þeir oft meiri keim af glæpamönnum heldur en heiðarlegum viðskiptajöfrum.

Rússar eru því í nokkuð erfiðri stöðu. Á eina hliðina eru þeir með nýríkt lið sem í besta falli er skítsama um hvað verður um Rússland svo lengi sem þeir geta grætt sem mest á því. Á hina hliðina eru stjórnvöld sem haga sér a.m.k. eins og draumurinn sé að efla völd Kremlar í átt til þess sem áður var.

Ég vona þó, eins og vonandi flestir, að þróun mála í Rússlandi fari að snúa við og ýtt verði undir aukið frelsi á næstu árum. Ég er því miður ekki mjög bjartsýnn á það.

Daði Einarsson, 21.8.2007 kl. 07:18

5 identicon

Sæll Daði.  Gott svar hjá þér.  Auðvitað er ég ekkert að banna einum eða neinum að hafa sterkar skoðanir á einu eða neinu, en ég verð að viðurkenna að ég sé ekki að grein um önnur lönd með titilinn “Land geðveikinnar?”  sé skrifuð af óhlutdrægum, djúpt þenkjandi einstaklingi.   En síðasta svar þitt er helvíti gott, þú tekur dæmi af því sem er að og spyrð síðan hvað sé til ráða í stað þess að alhæfa um heila þjóð og ýja að því að þeir sem búi þar séu allir geðveikir.

Þú talar um að Rússar hafi byrjað vel hina löngu og ströngu leið í átt að lýðræðisþjóðfélagi undir stjórn Yeltsins.  Þessu er ég ekki sammála.  Að rústa heilu samfélagi með einu pennastriki og starta síðan Shock Therapy ala Yegor Gaidar  er eitthvað það heimskulegasta sem Yeltsin og co. gátu gert.  Yeltsin var fyrst og fremst með þessum glæpsamlegu aðgerðum sínum að hrifsa  sem mestum af völdum til sín í valdatafli við erkióvin sinn Mikhail Gorbachev.  Honum var skítsama um eitthvað lýðræði, hann vissi ekki einu sinni hvað það orð þýddi.  En hann vissi að þetta orð hljómaði vel á Vesturlöndum og með því hóf hann djöfullegt ráðabrugg sitt. 

Með sjúklegri valdagræði hrifsaði hann til sín völdin, fékk sér vodka og hóf skemmdarstarfssemina.  Hikaði síðan ekki við að láta skriðdreka sína skjóta á þingmenn Rússlands í frægri orrustu um Hvíta húsið 1993.  Hikaði heldur ekki við að láta nánast öll völd í hendur olígarkana þegar hann mældist nálægt núllinu í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir forsetakosningarnar 1996.  Yeltsin gerir þar samning við olígarkana sem setja öfluga fjölmiðlamaskínu sína á full swing og náðu í kjölfarið að halda þeim gamla í Kreml í nokkur ár í viðbót. 

Eitthvað vildu jú olígarkarnir fá fyrir sinn snúð?  Jú, nefnilega öll þau auðæfi er landið hafði uppá að bjóða.  Yeltsin var orðinn að leikjabrúðu ungra manna er höfðu orðið ríkir við upplausn Sovétríkjanna.  Manna sem bjuggu í villum sínum í Frakklandi, dunduðu við snekkjur sínar við Miðjarðarhafið, og töldu peningana “sína” í leynilegum bankareikningum á Cayman eyjum.  Öflugt og heilbrigt lýðræði í Rússlandi á tímum Yeltsins?  Þvert á móti Davíð.

Þessir skítugu, óheiðarlegu og mannskemmandi samningar (Googlaðu “Loans for Shares” t.d) sem Yeltsin gerði við þessa glæpamenn átti svo Putin eftir að þurfa að kljást við sem náði hámarki með baráttu hans við Mikhail Khodorkovsky 2003.  Þannig að;  allir þeir sem halda að Yeltsin hafi haldið merkjum lýðræðisins á lofti með aðgerðum sínum ættu að kynna sér málið aðeins betur.  Upphafið að eyðileggingu Rússlands er barátta og loks alger sigur Yeltsin yfir Gorbachev sem hafði undir handakrikanum gallaðar en heiðvirðar kennisetningar.  Gorbi var á réttri leið.  

En kallinn varð með einu pennastriki þeirra Yeltsins, Shushkevich og Kravchuk þann 8 des ´91 forseti yfir landi sem var ekki lengur til.  Rússland fór stuttu síðar algerlega á hvínandi kúpuna.  Það stóð nánast ekkert eftir þegar Yeltsin steig loks niður fársjúkur á sál og líkama 1999.

Það sem fólk verður að átta sig á er það, að það hefur aldrei verið neitt lýðræði í Rússlandi.  Ekki undir keisurunum, ekki undir kommunum, ekki undir Yeltsin og ekki undir Putin.    En hey. ég elska Rússland.  Þetta er stórkostlegt land sem aldrei hættir að koma manni á óvart.  Það er alveg sama hversu oft ég kem þangað, alltaf upplifi ég eitthvað nýtt og spennandi.  Landið hefur margt að bjóða heiminum.  En því miður eru kennslustundir í “Lýðræði 101” ekki eitt af því.  Ekki enn allavega. 

Þessi dæmi sem þú tekur (lokun BBC, uppreisnarmenn í Suður-Ossetíu, árásir á upplýsingatæknikerfi Eistlands, gasflutningar til Úkraínu og svo nýjasta ógnin, hernaðarflugið ógurlega) eru dæmi sem eiga sér sögulegar, flóknar en skiljanlegar ástæður.  Þá er ég ekki að halda því fram að Rússar séu þar alltaf í fullum rétti, langt frá því, við erum bara að tala um mjög flókinn heim þar sem öll lönd berjast fyrir hagsmunum sínum. 

En að halda því fram að Putin og co. haldi uppi dauðasveitum sem hiki ekki við að myrða forsetaframbjóðendur eða stórskrítna njósnara í London, það er bara frekar erfitt að kyngja því sísona.  Það er ekkert mál að slengja fordómafullum alhæfingum fram.  Það getur hver sem er alhæft um allt, það getur hver sem er dæmt fyrirfram.  En að koma með sannanir, horfa hlutlaust á málin frá ÖLLUM sjónarhornum, það virðast menn frá öllum heimshornum eiga erfitt með, þám Rússar.

Örlítið um af hverju ég segi að Rússland sé á réttri leið:

Las viðtal við Daniel Kearvell 26 ára Breta sem er orðinn einn af yfirmönnum DHL í Rússlandi.  Hann segir:

““Russian specialists are growing more and more qualified. Now they are pretty much on the same level as their British counterparts. The young generation is extremely bright. They travel and study abroad, some speak English even better than we do. That’s what makes me positive about Russia’s future.”

Þessu er ég sammála.  Konan mín er rússnesk, við kynntumst er ég var í námi í Pétursborg 2001-2002.  Ég segi við rússneska vini okkar og jafnaldra er ég er búinn að fá mér eitt, tvö eða fleiri vodkastaup að þau séu framtíðin.  Þau séu fólkið sem muni taka við Rússlandi.  Og framtíðin er björt.  Eins og Kearvell segir, þá hefur þetta fólk ferðast, talar erlend tungumál, lítur á heiminn með opnum hug.  Og þau eru stolt af því að vera Rússar.  Og því fylgir að þeim leiðist þessi fyllibyttu / land geðveikinnar / KGB stimpill sem þau lesa svo oft um í erlendum tímaritum um Rússland.  Þetta er bara fólk.  Fólk.  Ekkert betri en við og ekkert verri en við.  Bara fólk.



Vadim Rechkalov, virtur rússneskur blaðamaður skrifaði í rússneska dagblaðið Moskovsky Komsomolets: “Það eru 150 milljónir Rússa til og ég er einn af þeim.  Ef við trúum því að Politkovskya hafi verið drepin af Ramzan Kadyrov og að Putin hafi síðan eftir að hann hafi verið nýbúinn að drepa Litvinenko gert Kadyrov að forseta Tétsníu, af hverju lifum við þá í þessari tilfinningadeyfð undir Putin?  Og hvað ef við trúum þessu ekki, af hverju megum við ekki segja það?  Fyrir mig, þá vildi ég miklu frekar vera kallaður málpípa rússnesku leyniþjónustunnar en að trúa án sannana að við búum í svona þjóðfélagi.?Rétt eins og meðal Vesturlandabúi myndi aldrei trúa því að Bush og co. hafi skiplagt árásirnar á Tvíburaturnana, eða að JFK hafi verið myrtur af elítunni í Washington.  Því ef við trúum því bara sísona, án þess að hafa sannanir fyrir því; í hvernig samfélagi teljum við okkur þá búa í?  Í samfélagi þar sem við viljum ala upp börnin okkar?  Nei.  Þess vegna styðja um 70% Rússa Putin, því Rússar sjá ekki forseta sinn og valdamenn landsins sem einhverskonar djöfla í mannsmynd.  Lífið í Rússlandi hefur batnað, fólk fær greidd launin sín á réttum tíma, launin hafa hækkað, sjúkrahúsin eru opin, ríkisstjórnin lækkar skatta og greiðir niður erlendar skuldir.  En jú, jú, stjórnarandstaðan fær ekki sitt pláss í fréttatímum, en það er bara eitt sem Vesturlandabúar verða að skilja:  Það skiptir Rússa bara ekki það miklu máli eins og er.  Því að það man ?lýðræðið? undir Yeltsin og allt ruglið sem því fylgdi.  Fólk kýs ekki á fastandi maga sagði rússneskur vinur minn eitt sinn.  Ef þú færð ekki launin þín greidd svo mánuðum skiptir (Yeltsin árin) eða ef bankinn tekur alla peningana þína (bankakerfið hrundi í ágúst 1998), hvaða máli skiptir þá fyrir fólk sem hefur aldrei kynnst lýðræði hversu margir pólitíkusar tala í sjónvarpinu eða hversu margir blaðamenn ræða um ástandið? 

Rússar hafa alltaf viljað sterka leiðtoga.  Þannig er það bara.  Og Putin er sterkur.  Og það er það sem þarf núna í Rússlandi til að rétta landið við.  En eftir því sem landið þróast, eftir því sem meiri peningar koma inn, eftir því sem fleiri ferðast til og frá landinu, eftir því sem Rússland eflist, því betra verður landið í stakkbúið til að verða að heilbrigðu lýðræðisríki. 

En að ætlast til þess núna, miðað við allt sem á undan er gengið síðustu áratugi, að Rússland breytist sísona í fullkomið lýðræðisríki... tja.. þeir sem búast við því þurfa að kynna sér mannkynssöguna ögn betur.  Það er í meira lagi barnalegt að ásaka Putin og ríkisstjórn landsins að þeir séu að eyðileggja einhverja lýðræðisþróun.  Hvaða lýðræðisþróun?  Lýðræðisþróun olígarkana?  Sanka að sér auði og flytja peningana úr landi?  Kaupa erlend fótboltafélög, nýjar snekkjur?  Meðan stór hluti þjóðarinnar býr undir fátækramörkum?! Nei takk!!  Ekki meira af því!!

Christopher Weafer yfirmaður hjá Alfa Bank; einum stæsta banka Rússlands orðar þetta vel í grein í St. Petersburg Times núna í vor:

 

“Over the past seven years, living standards in the country have grown steadily, and disposable income continues to grow at more than 10 percent in real terms annually. Surveys show that people expect to see economic growth and their own standard of living rising almost indefinitely.

Headlines proclaiming that Russia has the world’s fourth-largest financial reserves — third-largest if the stabilization fund is included — and is paying off more than $20 billion of Paris Club debt early only serve to reinforce those expectations. The enormous wealth gap in the country is acknowledged as a concern, but it is tempered by the expectation of continued rising living standards. That is also one of the key reasons why public support for the government remains high and why Putin’s chosen successor will almost certainly become the next president. “

Á meðan fólk sér jákvæðar breytingar í sínu lífi, þá mun það styðja þau stjórnvöld sem nú sitja í Kreml.  Ég veit að það er ofboðslega erfitt fyrir stjórnvöld í Washington og London að geta ekki ráðskast með Moskvu.  Þeir sakna sjálfssagt dagana þegar Yeltsin kom á hnjánum grátbiðjandi um meiri peninga.  En þeir dagar eru liðnir.  Rússland er staðið á fætur.  Landið styrkist, Rússar trúa aftur á landið sitt.  Þeir fjárfesta nú í heimalandi sínu í stað þess að flytja peninga út um leið og þeir fá hann í hendurnar.  Margir vel menntaðir Rússar flytja nú aftur heim, fá vinnu sem tengist þeirra menntun.  Frá rússneskum vini mínum sem ég spjallaði við í síma er ég spurði hann um lokun BBC:

“Er BBC hætt að senda út í Rússlandi?  Heyrðu, Rússland er að fara til fjandans! [hlátur]  Hvað gerum við nú er við getum ekki lengur hlustað á Breta tala um ástandið í Rússlandi? [meiri hlátur]”

Jæja, Davíð... þetta svar er að sjálfssögðu orðið allt of langt hjá mér.  Ég get bara stundum ekki hætt að tala/skrifa um Rússland þegar ég byrja.  Man ekki lengur hvað ég hef eyðilagt mörg partý á þessu...  Og það er svo margt annað sem ég vildi setja hér fram, en nú verð ég að stoppa.

Við sjáum hvað setur Davíð.  Ef ekkert hefur breyst til batnaðar í Rússlandi eftir 10 ár, þá mun ég fara að hafa áhyggjur.  En spyrjum að leikslokum.  Ég er bjartsýnn.  Því ég trúi á Rússland.  Ég trúi.

Bestu kveðjur,

Karl F. Thorarensen 21.8.2007 kl. 20:22

6 identicon

Sæll aftur.

Tilvitnunin hans Reckhalov endar:

 "Fyrir mig, þá vildi ég miklu frekar vera kallaður málpípa rússnesku leyniþjónustunnar en að trúa án sannana að við búum í svona þjóðfélagi."



Þetta kemur eitthvað öðruvísi út á síðunni þinni en í athugasemdardálknum.


Kveðja,

Karl F. Thorarensen 21.8.2007 kl. 20:28

7 identicon

haha, afsakið, svo kalla ég þig Davíð í tíma og ótíma..  afsakið það DAÐI :-)

Karl F. Thorarensen 21.8.2007 kl. 21:03

8 Smámynd: Daði Einarsson

Sæll Karl og takk fyrir mjög gott svar. Þú verður að fyrirgefa fyrirsögn greinarinnar en hún kemur útfrá tilefni skrifa minna sem voru að stjórnarandstæðingi var haldið gegn vilja sínum á geðdeild í 46 daga þó að ekkert væri að henni.

Rússar eru eins og annað fólk, frábært fólk og en að mínu mati með slæma stjórn. Ég hef unnið með nokkrum Rússum í tengslum við mitt starf og verð að segja að þeir eru með þeim betri sem ég hef átt samskipti við. Eða þ.e. unga fólkið í frjálsum félagasamtökum. Aftur á móti þeir sem ég hef starfað með og koma frá stjórnsýslunni eru ennþá mjög föst á klafa gömlu Sovésku hugsunarinnar hvernig á að koma fram sem fulltrúi stjórnvalda. Er þetta ekki bara það sama og hægt er að segja um USA - frábært fólk en slæm stjórnarstefna (ekki bara undir stjórn Bush).

Lýðræðisleg þróun átti sér stað á tíma Yeltsin þó of hægt hafi gengið en því miður urðu þau vandamál sem þú nefnir líka afurð þess tíma. Að vísu er of vægt að tala um þetta sem vandamál. Þessi völd nýríka liðsins sem skeytir litlu um örlög landsins og íbúa þess er vandamálið sem því miður hefur fallið til Pútíns og félaga að hreinsa upp. En það er ekki þar með sagt að þróun mála hafi verið jákvæð og ef þú ætlar að búa í lýðræðissamfélagi þá þarf ákveðið umburðalyndi af hálfu stjórnvalda.

Að loka fjölmiðlum er ekki bara mál er varðar tjáningarfrelsið heldur er merki um miklu stærra vandamál. Vandamálið er að í stað þess að leyfa umræðu að þróast um vandamál samfélagsins er hún takmörkuð eins mikið og mögulegt er þegar hún fer að verða óþægileg fyrir stjórnarherrana. Óþægilegar skoðanir eru því eins og unnt er þaggaðar. Fyrir hvaða fjölmiðil er lokað skiptir litlu máli, það að lokað sé á fjölmiðla er það sem máli skiptir. Eða hver er lógíkin fyrir að loka fyrir útsendingar BBC svo dæmi sé tekið?

Það er vissulega rétt hjá þér að ekki er í raun nein hefð fyrir lýðræði að vestrænni fyrirmynd í Rússlandi. Það er eitt vandamál en Rússar hafa alltaf haft þörf fyrir sterka leiðtoga og eins og þú segir þá skiptir fólk meiru að hafa í sig og á heldur en hver stjórnar landinu. Þetta er ekki einstakt fyrir Rússland en er kannski meira áberandi og sterkara í þeirra sögu.

Auðvitað er það sem er í gangi núna í utanríkismálum Rússlands með langar sögulegar rætur. En hvernig réttlætir það að ýta undir uppreisn innan landamæra annars fullvalda ríkis? Hvernig er hægt að réttlæta árásina á Eistland þ.e. á upplýsingatæknikerfi þeirra? Hvernig er hægt að réttlæta aðkomu þeirra að innanríkismálum annarra ríkja bara af því að þau eru hluti af fyrrverandi Sovétinu?

Hvað sem yfirvöld í USA eða UK vilja þá skiptir það mig litlu máli þegar kemur að málefnum Rússlands, enda er það fólk sem lifir í samfélagi þar sem ekki er nægjanlegt frelsi er það sem mér er annt um. En eitt sem má segja um þá félaga Bush og Pútín er að mínu mati hefur á valdatíma þeirra frelsi farið hallloka í báðum löndum. 

Ég vona að þú hafir rétt fyrir þér þegar þú segir að Rússland sé að þokast í rétta átt, þó ég sjái þess ekki merki á lýðræðissviðinu. Gaman væri ef á næstu áratugum munum við sjá lýðræðislegt Rússland rísa úr öskustó kommunísmans. 

Daði Einarsson, 21.8.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og ellefu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 773

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband