Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kemur varla á óvart

Í ljósi atburða undanfarinna vikna þá kemur varla á óvart að harðlínumenn í Serbíu séu að auka fylgi sitt sem kemur ljóslega fram í úrslitum fyrr umferðar forsetakosninganna. Undanfarið hefur mjög verið vegið að Serbíu í ljósi krafna Kosovo Albana um sjálfstæði Kosovo. Alþjóðasamfélagið hefur að stórum hluta lýst yfir stuðningi við áform um sjálfstæði svæðisins og íbúar í Serbíu hafa örugglega á tilfinningunni að allir séu á móti þeim. Þeir geti því ekki gert mjög mikið til að sporna við því tekið sé stórt landsvæði af þeim. Þó að þeir hafi ekki haft stjórn á svæðinu undanfarin ár þá hefur það auðvitað verið innan landamæra Serbíu. Kosovo er auk þess mikilvægt í þjóðarvitund Serba og hefur það því mikil áhrif á alla Serba. Auðvitað eru Serbar mikill minnihluti í Kosovo og sú staða hefur veikst mun frekar nú þegar Kosovo Albanir hafa hrakið beint og óbeint stóran hluta Serba sem áður bjuggu í Kosovo á brott. Kannski yrði skásta lausnin í þessari stöðu að norðurhluti Kosovo yrði áfram hluti af Serbíu - þ.e. sá hluti sem nú ennþá að mestu byggður Serbum - og restin yrði sjálfstætt ríki. Auðvitað myndu Serbar ekki vera kátir með það en kannski yrði það best fyrir þá sjálfa.

Á innan við 20 árum hafa Serbar horft á gömlu Júgóslavíu brotna upp, mikil stríð vegna þess og svo nú virðist vera sem skera eigi hluta af þeirra eigin landi - landi sem þeir hafa ráðið yfir og verið hluti af landinu í árhundruð.

Forvitnilegt verður að sjá hvort að í annarri umferð kosninganna muni staða harðlínuaflanna styrkjast frekar með að þeir nái forsetaembættinu. Og svo hvaða áhrif það mun hafa á hvernig Serbar nálgast Kosovo málið. Mun kannski afstaða þeirra harðna enn frekar og munu þá kostir sem jafnvel eru ekki alvarlega uppi á borðinu verða uppi á borðinu á ný. Hvað sem öllu líður þá verður forvitnilegt að fylgjast með þróun stjórnmála í Serbíu á næstu misserum.


mbl.is Harðlínumaður með forskot í kosningum í Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað er ekki hægt að treysta þeim!

Hvernig er hægt að treysta ríki sem hefur í raun skilgreint sig sem andstæðing vesturveldanna? Þeir hafa auðvitað hag af því að sýna mátt sinn og að önnur ríki viti hver ræður í þeirra landi. Í þeirra huga er það líklega hin mesta móðgun af Bretum að óska eftir að einstaklingur grunaður um alvarlegan glæp sé framseldur. Sérstaklega þegar viðkomandi er bæði ríkur og nátengdur valdhöfum í Kreml.

Rússar hafa síðan Sovétið féll verið að reyna endurheimta stöðu sína sem stórveldi. Þeir hafa reynt það sem þeir geta til að fyrrum ríki sem mynduðu Sovétríkin tengist ekki of náið vestrænum ríkjum. Þeir hafa reynt að hafa áhrif á ríki sem áður voru leppríki þeirra til að þau væru ekki með of mikil tengsl við fyrrum/núverandi andstæðinga Sovétsins. Þeir líta á allt orðið sem móðgun þegar kemur að USA og NATO. Þegar USA vill byggja upp eldflaugavarnarkerfi sem þarf m.a. bækistöðvar í nokkrum NATO ríkjum í mið og austur Evrópu þá verða Rússar fúlir. Nú hafa þeir aukið hernaðarumsvif sín með langdrægu flugi sprengjuvéla og fleiru sem ber að sama brunni.

Rússar eru að gera það sem þeir geta til að auka völd sín og skilgreina sig að mörgu leiti sem andstæðing USA og NATO. Í þeirri stöðu geta menn varla treyst þeim og fólk sem áður var undir hæl Sovétsins hefur langa reynslu af því að þeim sé ekki treystandi!


mbl.is „Ekki hægt að treysta Rússum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið mál

Það má teljast nokkuð undarlegt þegar skatturinn og lögreglan eru farin að slást fyrir dómstólum landsins. Yfirleitt myndi maður halda að þau myndu vinna saman. En með fullri virðingu fyrir skattinum þá er það furðulegt að vilja ekki afhenda lögreglunni gögn þegar þeir birta á hverju ári upplýsingar um skattálagningu á alla skattskylda einstaklinga á Íslandi. Hvernig er hægt að treysta yfirvöldum sem miðla jafnvel viðkvæmum persónuupplýsingum um alla landsmenn til alls almennings á hverju ári?


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þá bara að sleppa þeim eða hvað?

Nú ætla Ástralir að frelsa þessa glæpamenn og þá jafnvel með valdi ef þörf er á. En hvað svo? Ætla yfirvöld í Ástralíu að gera eitthvað frekar í málinu? Eða verður þeim bara sleppt og ekkert mál? Vel má vera að gott sé að þessir liðsmenn Sea Shephard verði ekki í haldi hvalveiðimanna en varla getur það verið vilji yfirvalda í Ástralíu að gefa samþykki fyrir aðgerðum sem þessum. Eru þetta ekki svipaðar aðgerðir og sjóræningjar myndu beita? Gaman verður að sjá viðbrögð bæði hvalveiðimannanna og auðvitað japanskra yfirvalda í málinu.


mbl.is Áströlsk yfirvöld sækja liðsmenn Sea Shepard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverju áttu þeir von?

Er heil brú í þessum liðsmönnum Sea Shephard? Þú ræðst um borð í skip og ætlast svo til að allt sé í góðu. Menn verða að búast við að ef þeir beita ofbeldisfullum aðgerðum að vera teknir höndum eða jafnvel verða sjálfir fyrir ofbeldi. Sea Shephard hefur lengi beitt ofbeldi í baráttu sinni og uppskeran er lítil. Ekki veit ég hvort að japönsku hvalveiðimennirnir geta tekið þessa tvo hryðjuverkamenn höndum en best væri þó að þeir afhendi þá til japanskra yfirvalda sem geta þá ákveðið hvort að þeir verða kærðir eða látnir lausir. Að vísu er spurning hvort að ákæra sé ekki nákvæmlega það sem Sea Shephard er að bíða eftir.

Ef náttúru- og dýraverndunarsamtök ætla sér að ná árangri þá verða þau að vera samkvæm sjálfum sér. Ef þú ert á móti ofbeldi á dýrum þá hlýturðu að vera gegn ofbeldi almennt eða hvað? Réttlætir kannski tilgangurinn meðalið? Hverju hefur t.d. Sea Shephard náð fram? Þeir hafa stöðvað tímabundið veiðar eins skips í kannski nokkra daga, nema þegar þeir sökktu hvalveiðiskipunum í Reykjavíkurhöfn. Hvalveiðibannið hefði líklega ekki verið samþykkt ef að menn í öðrum hvalfriðunarsamtökum hefðu notað ofbeldi frekar en pólitískar aðgerðir s.s. fjöldamótmæli og að þrýsta á ráðamenn. Ofbeldi skilar aldrei langtíma árangri!


mbl.is Liðsmenn Sea Shepherd enn í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara forvarnir og framleiðsla áfengis saman?

Nú átta ég mig ekki á Tryggingamiðstöðinni þegar þeir eru að veita þessi verðlaun. Nú hefur ákveðið fyrirtæki, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., það að sínu aðalverkefni að framleiða og selja eins mikið af drykkjum eins og hægt er. Þar með talið bjór. Fyrirtækið er að framleiða bjór og svo fær það forvarnarverðlaun fyrir eitthvað starf til að draga úr slysum. Gott og vel, en er það ekki áfengisneysla sem er stór áhrifaþáttur í mörgum umferðaslysum? Getur það virkilega farið saman að framleiða þennan áhrifaþátt og að vera verðlaunaður fyrir forvarnarstarf? Það er flott ef að Ölgerðin heldur úti miklu forvarnarstarfi, en varla getur það verið svo mikið að önnur fyrirtæki eigi ekki verðlaun sem þessi frekar skilið. Eða er kannski verið að verðlauna fyrir forvarnir gegn slysum í atvinnurekstrinum? Ef svo er þá má vel vera að þeir eigi þetta skilið.


mbl.is Ölgerðin fær forvarnarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg nálgun

Pakistanar eru raunsæir og sýna það vel í baráttunni við hryðjuverkamenn í landinu. Ekki er farið mjúkum höndum um þá og ekki er verið að sóa takmörkuðum liðsafla til að leita uppi einn mann. Bin Laden er, eða var, mikilvægur og það yrði móralskur sigur að ná honum en hann er ekki endilega lykillinn að sigri eða halda menn að með handtöku hans myndi Al Queda falla saman og hryðjuverk öfgahópa hætta. Til að ná að vinna þessa öfgahópa þá þarf að ráðast gegn þeim á tveimur vígstöðvum. Í fyrsta lagi með öflugum hernaði gegn þeim til lengri tíma og þeir fái aldrei frið til að ná vopnum sínum á ný. Í öðru lagi þarf með ýmsum samfélagslegum aðgerðum að draga úr þeim áhrifaþáttum sem ýta undir líkurnar á að ungir menn gangi til liðs við þessa öfgahópa og séu jafnvel tilbúnir að fremja sjálfsmorð fyrir málstaðinn. Hér eru t.d. aðgerðir eins og menntun, ýta undir betra efnahagsástand (aukin atvinna), o.fl. sem skiptir miklu máli.

Fyrir Bandaríkjamenn hefur það verið mikið atriði að ná Bin Laden, en þeir átta sig oft ekki á því að hann er ekki lykilatriði og að þeir sem ganga til liðs við öfgahópa eru endilega ekki of trúaðir. Þessir ungu menn sjá oft öfgahópana sem einu leiðina annað hvort útúr vonlausum aðstæðum eða til baráttu gegn einræðisherrum. Oft fara þessir þættir saman. T.d. er ekki að furða að stór hópur hryðjuverkamanna öfgahópa kemur frá Saudi Arabíu. Er ekki kominn tími á að fara að gagnrýna alvarlega stjórnvöld þar og reyna að ýta undir umbætur í landinu? 


mbl.is Ekki leitað að bin Laden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími á að takmarka lengd eins manns í embætti Forseta?

Nú er ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson, Forseti Íslands mun bjóða sig fram til endurkjörs. Hann hefur þegar setið í embættinu í næstum 12 ár og er það svipað og forverar hans enda hafa Forsetar lýðveldisins setið 12-16 ár í embættinu þ.e. fyrir utan Svein Björnsson en hann dó í embætti. Aldrei hafa í raun komið fram öflug framboð gegn sitjandi Forseta. Hér áður var meginreglan að ekki sé boðið gegn sitjandi Forseta og hann/hún ákveði í raun hvenær þeim finnst tíminn nógu langur. Vel má vera að við höfum haft svo góða Forseta, a.m.k. er ekki það mikið hægt að setja út á embættisfærslur þeirra enda eru þeir ekki formlega ábyrgir fyrir embættisfærslum. En erum við kannski að missa af góðum frambjóðendum þar sem alvarleg mótframboð eru erfið og Forsetar sitja lengi í embættinu?

Í ljósi ofansagðs kemur upp spurningin hvort að ekki sé kominn tími á að setja takmörk á hve lengi einn einstaklingur getur setið í embætti Forseta. Getur það verið eðlilegt að í lýðræðisríki geti menn setið svo lengi í embætti? Ég myndi leggja til að 8 ár væru nóg og að þá gæti viðkomandi einstaklingur ekki setið lengur, a.m.k. samfellt, sem Forseti.

Og að lokum þá óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs.


mbl.is Býður sig fram til endurkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími til?

Gott er að vita til þess að ýtt er á að framfylgja lögum í landinu þegar kemur að hlutverki eins trúfélags í skólum landsins. Varla er eðlilegt að trúboð fari fram í skólum sem börn landsins verða að sækja. Að fermingarfræðsla eða ferðir fari fram á skólatíma á auðvitað ekki að þekkjast. Í samfélagi sem tekur skýrt fram í stjórnarskrá, lögum og sáttmálum sem hafa verið undirritaðir að öll trúarbrögð séu jafnrétthá, þá getur ekki verið eðlilegt að einu sé hyglað meira en öðru. Að vísu segir líka í stjórnarskránni að ríkið skuli styðja við Þjóðkirkjuna, en menn hafa varla verið að hugsa um að kirkjan gæti haft svo greiðan aðgang að börnunum.

Best er fyrir alla aðila að hafa skýran aðskilnað milli skóla og kirkju, enda verður að hafa í huga að í skólum landsins eru börn með mismunandi trúarbrögð sem tilheyra jafnvel mismunandi trúfélögum innan sömu trúar s.s. kaþólskir, mótmælendur, o.fl. 


mbl.is Áfram deilt um Krist í kennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfur, úlfur

Menn eru fljótir að hrópa úlfur, úlfur bara af því að Norðmenn segja að þeir gætu jafnvel beitt neitunarvaldi varðandi þjónustutilskipunina. Norðmenn eru að setja á fót sérfræðinganefnd til að meta áhrif tilskipunarinnar á Noreg. Mjög eðlileg ráðstöfun enda um stórt mál að ræða. Ef norðmenn beita neitunarvaldi skapar það vissulega vandamál en að tala um að EES samningurinn sé þá í uppnámi er kannski of langt seilst. Það er ekki sjálfkrafa að þjónustuhluti samningsins verði tekinn úr sambandi þó að neitunarvaldi sé beitt. Til þess þarf sérstaka ákvörðun.

Ef til þess kemur að Noregur beiti neitunarvaldi þá mun auðvitað fara í gagn sáttarferli til að taka á þeim atriðum sem Norðmenn væru ekki sáttir með. ESB er pólitísk stofnun sem hefur sýnt það í gegnum tíðina að þeir finna lausnir ef vilji er til þess. 

Einhvernvegin læðist að manni sá grunur að þetta mál snúist ekki svo mikið um tilskipunina, heldur að Norðmenn vilji sýna í verki (með að stofna nefnd og að rætt sé um neitunarvaldið) að það er ekki endilega sjálfkrafa að Noregur samþykki allt sem kemur frá ESB. 


mbl.is Nálgast endalok EES-samningsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur um hitt og þetta

Höfundur

Daði Einarsson
Daði Einarsson

Áhugamaður um stefnumótun, sérstaklega í heilbrigðismálum og í því er varðar siðferði í opinberri stjórnsýslu. Ennfremur með mikinn áhuga á gæludýrum og allt sem þau varðar, og rek ásamt tveimur öðrum óháð gæludýraspjall.

Netfang: dadi.einarsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 667

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband